Vilja koma á raunverulegu þjóðarsamtali

Nýr sam­ráðshópur um end­ur­skoðun bú­vöru­samn­inga var skipaður í byrjun febrúar,
Nýr sam­ráðshópur um end­ur­skoðun bú­vöru­samn­inga var skipaður í byrjun febrúar, mbl.is/Hjörtur

ASÍ skorar á stjórnvöld að koma á raunverulegu þjóðarsamtali um íslenskan landbúnað þannig að hægt sé að nýta tækifæri til jákvæðra breytinga, framleiðendum, neytendum, launafólki og byggðum til góða.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í yfirlýsingu sambandsins vegna skipunar í samráðshóp um endurskoðun búvörusamninga.

Kristján Þór Júlí­us­son, sjáv­ar­út­vegs- og land­búnaðarráðherra, skipaði í sam­ráðshóp um end­ur­skoðun bú­vöru­samn­inga í byrjun febrúar, en hann leysti fyrri hóp upp í des­em­ber. Færri fulltrúar eru í nýja hópnum, átta í stað þrett­án.

Frétt mbl.is: Skipar tvo formenn í nýjan búvöruhóp

Í nýja samráðshópnum er gert ráð fyrir að ASÍ og BSRB skipi sameiginlegan fulltrúa. ASÍ og BSRB fóru hins vegar fram á að eiga hvorn sinn fulltrúan í samráðshópnum. Á það var ekki fallist.

„Alþýðusambandið og BSRB hafa um áratugaskeið staðið saman að samtali við stjórnvöld um landbúnað, m.a. með setu í verðlagsnefnd búvara. Á undanförnum misserum hefur þróun þessara mála verið með þeim hætti að vaxandi ósætti er um stefnu stjórnvalda í landbúnaðarmálum. Leiddi það m.a. til þess að samtök launafólks hafa hafnað því að skipa fulltrúa í verðlagsnefnd búvara þar til endurskoðun þessarar stefnu hefur farið fram. Því gerðu samtökin kröfu til þess að eiga hvorn sinn fulltrúan í þessari nefnd,“ segir í yfirlýsingu ASÍ.

Fulltrúar ASÍ meta það svo að það sé dapurleg niðurstaða að íslenskt launafólk eigi ekki talsmann í samráðshópi um endurskoðun búvörusamninga, hvorki þeir sem starfa í greininni né aðrir sem hafa mikla hagsmuni af þróun landbúnaðarins.

„Það er skoðun ASÍ að breytinga sé þörf í íslenskum landbúnaði, framleiðendum, launafólki og neytendum til góða. Núverandi kerfi hefur ekki sýnt að það sé best fallið til þess að auka nýsköpun, tryggja byggð eða skila aukinni hagræðingu og framleiðni til neytenda eða launafólks,“ segir í yfirlýsingu ASÍ.

mbl.is