Ákærðir fyrir líkamsárás og frelsissviptingu

Frá Akureyri.
Frá Akureyri. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Tveir karlmenn um þrítugt hafa verið ákærðir fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás og frelsissviptingu á Akureyri í apríl árið 2016. Er annar maðurinn sakaður um að hafa veist að fórnarlambinu með ofbeldi, meðal annars með því að draga hann upp úr heitum potti og á sólpall þar sem hann var snúinn niður í glerbrot og ítrekað laminn í andlitið.

Eru mennirnir báðir sakaðir um að hafa klukkan 7:30 um morguninn í félagi við þriðja mann, svipt fórnarlambið frelsi sínu með því að setja hann rænulausan upp á pallbifreið á sama stað og líkamsárásin átti sér stað í Giljahverfi. Var manninum svo ekið frá Giljahverfi upp að Fálkafelli fyrir ofan Akureyri og hann skilinn þar eftir meðvitundalaus og mikið slasaður.

Vegfarandi gekk fram á manninn rúmlega 11 um morguninn, en þá hafði hann hlotið áverka víða og var meðal annars með sjáanlegt skófar á enni, brotinn úlnlið og yfirborðsáverka og bólgur á öllum útlimum og andliti.

Telst árásin sérstaklega hættuleg, en við slíku broti getur legið allt að 16 ára fangelsi. Fyrirtaka málsins fer fram í Héraðsdómi Norðurlands eystra á morgun.

Af hálfu fórnarlambsins er farið fram á tvær milljónir í einkaréttarkröfu vegna árásarinnar.

Maðurinn sem varð fyrir árásinni og frelsissviptingunni hefur áður orðið fyrir árás á Akureyri, en í fyrra varð hann fyrir hnífstunguárás í Kjarnaskógi þar sem slagæð rofnaði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert