Ferðamenn á hálum ís á Fjallsárlóni

Fimm ferðamenn lögðu upp í mikla hættuför yfir ísilagt Fjallsárlón.
Fimm ferðamenn lögðu upp í mikla hættuför yfir ísilagt Fjallsárlón. Ljósmynd/Lilja Steinunn/Landsbjörg

Fimm ferðamenn gerðu sér líklega ekki grein fyrir þeirri hættuför sem þeir lögðu upp í á dögunum þegar þeir gengu út á ísilagt Fjallsárlón. Þeim varð ekki meint af göngunni en landvörður í Vatnajökulsþjóðgarði gerði Landsbjörg viðvart sem birti mynd af athæfinu á Facebook-síðu Safe Travel, verkefni sem slysavarnafélagið heldur úti.

Jónas Guðmundsson hjá Slysavarnafélaginu Landsbjörg segir að þessi hegðun ferðamanna sé viðvarandi vandamál, en sem betur fer sé það minnihluti ferðamanna sem hætti sér út á ísinn.

„Víða erlendis, eins og í Finnlandi, Rússlandi og Kanada, tíðkast að labba á ísilögðum vötnum. En það á ekki við hér á landi,“ segir Jónas í samtali við mbl.is.

Viðvörunarskiltum komið upp

Unnið hefur verið markvisst að því að benda ferðamönnum á hættuna sem fylgir því að fara út á ísinn. „Fyrir örstuttu síðan útbjuggum við skilti sem vara við hættunni sem þessu fylgir,“ segir Jónas. Sex skilti hafa verið sett upp við Jökulsárslón og unnið er að því að setja upp skilti við Fjallsárlón. „Þetta eru myndræn skilti sem á að vera auðvelt að skilja,“ segir Jónas.

Engin slys hafa orðið á fólki hingað til en Jónas segir að einungis sé um tímaspursmál að ræða. „Það er erfitt að koma björgun við í svona aðstæðum. Þetta getur verið mjög hættulegt og ljóst að einhver hluti ferðamanna áttar sig ekki á hættunni, sérstaklega í aðstæðum eins og núna þegar hlánar,“ segir hann.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert