Hefði ekki gerst væri reglum fylgt

Farþegar með ferðaþjónustu fatlaðra eru stimplaðir bæði inn og út …
Farþegar með ferðaþjónustu fatlaðra eru stimplaðir bæði inn og út úr bílunum og því á það ekki að fara framhjá bílstjóra að einhver sé enn í vagninum. Mynd úr safni. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Það er eiginlega ofar manns skilningi að þetta geti gerst,“ segir Jóhannes Svavar Rúnarsson framkvæmdastjóri Strætó. Fyrirtækið fundaði í morgun um mál mikið fatlaðrar konu sem var skilin eftir í bíl ferðaþjónustu fatlaðra í gærmorgun er bílstjórinn brá sér heim í kaffi.

„Þetta virðist hafa verið ákveðinn athyglisskortur, því að öll tæki og tól voru til staðar til að sýna fram á að það væri farþegi í bílnum,“ segir hann.

Fréttablaðið greindi frá því í morgun að  konan, sem aka átti í gærmorgun af heimili hennar á sambýlinu Vættaborgum í Grafarvogi til vinnu að Lækjarási, vinnustað fyrir fatlaða í Fossvoginum, hefði verið skilin eftir í bílnum þegar bílstjórinn fór heim í kaffi. Þegar konan skilaði sér ekki til vinnu fóru verkferlar í gang hjá Lækjarási og kom þá í ljós að konan hafði verið sótt á sambýlið. Við nánari eftirgrennslan fannst konan, sem aldrei er skilin eftir ein vegna alvarlegrar flogaveiki, síðan ein og yfirgefin í bílnum.

Farþegar stimplaðir bæði inn og út

Jóhannes Svavar segir það þó hafa sýnt sig að ferlarnir sem fóru af stað eftir að konan skilaði sér ekki hafi virkað. „Í öllum bílum eru farþegar stimplaðir bæði inn og út úr bílnum, þannig að viðkomandi akstursaðili á að sjá að hann er ekki búin að stimpla út alla farþegana sem eru í bílnum.“ Hann bætir við að aukinheldur séu bílarnir ekki stórir og því sé það ofar sínum skilningi að bílstjórinn hafi ekki séð farþegann. „Atvikið hefði aldrei átt að geta gerst, ef farið hefði verið eftir verklagsreglum.“

Jóhannes Svavar Rúnarsson, framkvæmdastjóri Strætó, segir alltaf fundað þegar svona …
Jóhannes Svavar Rúnarsson, framkvæmdastjóri Strætó, segir alltaf fundað þegar svona atvik koman upp og reynt að læra af þeim. Ljósmynd/Aðsend

Nokkuð var um alvarleg atvik þegar Strætó og verktakar á vegum fyrirtækisins tóku yfir ferðaþjónustu fatlaðra á höfuðborgarsvæðinu öllu utan Kópavogs um áramótin 2014-2015, en áður sá Strætó bara um þjónustuna í Reykjavík.

Jóhannes Svavar segir að þeir viðbragðsferlar og verklagsreglur sem settir voru í kjölfarið hafi sýnt sig vera að virka. „Þetta hefur gengið ótrúlega vel síðan. Við erum að keyra hátt í 40.000 ferðir á mánuði og fáum að jafnaði kannski á bilinu 10-15 ábendingar um eitthvað sem betur má fara,“ segir hann. „Þetta er allt í rétta átt og við reynum náttúrulega bara að gera enn betur.“

Þess vegna skilji menn hjá Strætó ekki af hverju svona atvik séu nú að gerast aftur, en mbl.is greindi  frá því í síðustu viku að ferðaþjónustan hafi skilið unga stúlku sem var á leið á ball í félagsmiðstöð eftir eina fyrir utan skólann hennar að kvöldi til.

Álag ekki ástæðan að mati Strætó

„Í sumum tilvikum þá grípur mannlega höndin inn í og það verða einhver mistök sem enginn ferill eða verklagsregla virðist ná yfir um, þó að menn eigi að kunna þær,“ segir Jóhannes Svavar.

Fjöldi farþega sé svipaður og verið hefur og ekki hafi orðið breyting á verktökum, enda aðeins ákveðnir verktakar sem hafi farið í gegnum útboð sem megi sinna þjónustunni. „Það er frekar að þeir kvarti yfir verkefnaleysi,“ segir Jóhannes Svavar og kveður álag því ekki ástæðuna að mati Strætó.

20 verktakar með um 100 starfsmenn sinna ferðaþjónustu fatlaðra og eru þeir allt frá því að vera einyrkjar upp í að reka fyrirtæki með starfsmenn í vinnu. Jóhannes Svavar segir mjög ítarlega bakgrunnsskimun gerða á öllum sem sjái um akstursþjónustuna. „Við höfum líka heimild til að fá sérstakt sakarvottorð,“ segir hann og kveður fyrirtækið þannig geta fengið upplýsingar frá saksóknara komi eitthvað saknæmt fram. „Það er engin sem fær að vinna hér ef hann er brotlegur við ákveðnar reglur og það er mjög hart gengið eftir því.“   

Mannlegi þátturinn virðist hins vegar geta valdið mistökum „ef einhver einhverstaðar er ekki með nógu mikla athygli. Þá virðast hlutir gerast þó að það séu til skýrar verklagsreglur um ákveðna hluti, þá virðist svo vera að í einstaka tilvikum fari menn ekki eftir því. Þetta er hins vegar mjög viðkvæm þjónusta og viðkvæmur viðskiptavinahópur þannig að það má ekkert út af bregða,“ segir Jóhannes Svavar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert