Bandaríkjamenn ánægðastir á Íslandi

Ferðamenn við Hallgrímskirkju.
Ferðamenn við Hallgrímskirkju. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Bandaríkjamenn voru ánægðastir erlendra ferðamanna með dvöl sína á Íslandi í janúar, samkvæmt niðurstöðum Ferðamannapúlsins. Mældust þeir efstir með 84,5 stig.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Gallup.

Bretar mældust í öðru sæti með 83,8 stig, Danir í þriðja með 83,6 stig, Kanadabúar í fjórða með 82,8 stig og Ástralar í fimmta með 82,4 stig.

Ferðamannapúlsinn mældist lægstur meðal ferðamanna frá Kína, eða 74,7 stig.

Ferðamenn 69 þjóða svöruðu að þessu sinni Ferðamannapúlsinum sem mælir heildarupplifun ferðamanna af Íslandsferðinni og fjórar af fimm efstu þjóðunum eru enskumælandi.

Erlendir ferðamenn við Gullfoss.
Erlendir ferðamenn við Gullfoss. mbl.is/Ómar Óskarsson

Gallup kannar viðhorf erlendra ferðamanna til Íslands í hverjum mánuði og reiknar út Ferðamannapúls út frá niðurstöðunum.

Ferðamannapúlsinn byggir á fimm spurningum sem mæla heildaránægju ferðamanna, hvort ferðamenn telji að Íslandsferðin hafa verið peninganna virði, hvort hún hafi staðist væntingar þeirra, líkur á meðmælum og mati ferðamanna á gestrisni Íslendinga.

Í janúar mældist Ferðamannapúlsinn með 83,0 stig af 100 mögulegum og hækkar hann um 0,5 stig á milli mánaða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert