Þingkonu misbauð málþing og gekk út

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar.
Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Eggert

„Þetta var svolítið vandræðalegt miðað við það hvaða dagur er í dag, að vera þarna með eina konu sem fyrirlesara og enga konu í pallborðsumræðu,“ segir Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, þingkona Samfylkingarinnar, sem gekk út af málþingi Byggðastofnunar um raforku sem haldið var í Hofi á Akureyri í dag. Þess ber að geta að í dag er alþjóðabaráttudagur kvenna.

„Þetta á náttúrulega ekki að koma fyrir í dag. Meira að segja fundarstjóri var karlmaður. Ég gerði athugasemd við þetta fyrir fundinn við formann og forstjóra Byggðastofnunar sem varð til þess að formaður stjórnar og fundarstjóri byrjaði málþingið á að afsaka þetta.“

Albertína segir að hægt hafi verið að sjá strax fyrir um leið og byrjað var að setja saman dagskrá og raða upp fyrirlesurum að þetta yrðu bara karlar. „Eins og forstjóri Landsnets kom inn á þá er framkvæmdastjórnin þeirra t.d. skipuð jafnmörgum konum og körlum þannig að Byggðastofnun hefði verið í lófa lagt að óska eftir því að einhverjir fulltrúar þeirra sem yrðu með erindi væru konur, svo ábyrgðin liggur algerlega hjá þeim.“

Alþjóðabaráttudagur fyrir réttindum kvenna, ekki kvennafrídagurinn

„Við verðum að vekja athygli á því þegar svona lagað gerist í hvora áttina sem það er, því öðruvísi breytum við þessu aldrei. Árið 2018 áttu að vera farinn að vera meðvitaðri um raunveruleikann og passa að svona gerist ekki.“

Eins og áður sagði var Albertínu misboðið og gekk hún út af fundinum þegar henni varð ljóst að engin kona tæki þátt í pallborðsumræðunni. „Ég var ekki með nein læti ég ákvað bara að ég gæti þetta ekki lengur og sagði stundarhátt að ég yrði frammi og fór út. Þetta er náttúrulega mikilvægt umræðuefni og þetta var að mörgu leyti gott málþing, svo ég vildi ekki vera með einhver uppþot.“

Hún ætlar að taka málið upp bæði við ráðherra og á Alþingi. „Ef við ætlum raunverulega að ná fram einhverjum breytingum þá verðum við að vekja athygli á þessu.“

„Þetta er alþjóðabaráttudagur fyrir réttindum kvenna og það gerði þetta enn þá sorglegra. Þá á að vera til fyrirmyndar. Það hefði mátt halda að þeir héldu að þetta væri kvennafrídagurinn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert