Kyrrsetningu á eignum Valitor hafnað

Höfuðstöðvar Valitor við Dalshraun í Hafnarfirði.
Höfuðstöðvar Valitor við Dalshraun í Hafnarfirði.

Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu hefur hafnað kyrrsetningarkröfu Datacell og Sunshine Press Productions (SPP) á eignum Valitor.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Valitor.

„Ákvörðunin kemur ekki óvart enda telur Valitor að kyrrsetningarkrafan hafi ekki átt við nein rök að styðjast,“ segir í tilkynningunni.

„Vert er að benda á að langstærstur hluti krafna framangreindra félaga á hendur Valitor, eða um 95%, er krafa SPP sem er að langmestu leyti í eigu Julian Assange, auk nokkurra Íslendinga. Það félag hefur aldrei átt í neinu viðskiptasambandi við Valitor. Auk þess hefur félagið aldrei haft nema hverfandi tekjur en gerir samt milljarða kröfur á hendur fyrirtækinu. Valitor hefur frá upphafi talið að enginn grundvöllur sé fyrir kröfugerð SPP og hefur því ítrekað hafnað henni. Auk þess er vert að minna á að enginn dómur hefur fallið um kröfugerð SPP.“

Datacell og Suns­hine Press Producti­ons, sem önnuðust rekst­ur greiðslugátt­ar fyr­ir Wiki­leaks, hyggj­ast fara í skaðabóta­mál gegn Valitor vegna þess að fé­lagið ákvað ein­hliða og án fyr­ir­vara að loka gátt­inni árið 2011.

Fyrirtækin fóru fram á að sýslumaður­inn kyrrsetti eign­ir Valitors fyr­ir sex og hálf­an millj­arð króna.

„Forsvarsmaður Wikileaks hefur greint frá því að samtökin hafi ekki orðið fyrir tjóni vegna lokunarinnar heldur stórgrætt, þar sem þau hafi orðið að taka við bitcoin gjaldmiðlinum þess í stað, en verðmæti hans hefur aukist um 50.000 % síðan þá,“ segir einnig í tilkynningunni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert