Í annarlegu ástandi með þýfi á Ísafirði

mbl.is/Þórður

Lögreglan á Vestfjörðum hafði hinn 7. mars afskipti af tveimur mönnum af höfuðborgarsvæðinu, sem virtust nýlega komnir til Ísafjarðar. Þeir voru við bifreið sína og það kom í ljós mennirnir voru í annarlegu ástandi. Í bifreiðinni fannst töluvert af varningi sem í ljós kom að var þýfi.

Fram kemur í tilkynningu frá lögeglu, að hluti þess hafi verið stolið úr húsnæði í Ísafjarðardjúpi, nóttina áður, en annað á höfuðborgarsvæðinu. Á öðrum mannanna fundust fíkniefni, nánar til tekið ætlað amfetamín.

Í tengslum við rannsókn málsins framkvæmdi lögreglan húsleit á þremur stöðum í Ísafjarðarbæ. Meira þýfi fannst á tveimur þeirra staða, auk ætlaðra fíkniefna og ólöglegra hormónalyfja.

Við rannsóknina var fleira fólk handtekið, grunað um aðild að málinu, eða samtals fimm manns. Þetta fólk var í haldi meðan rannsókn málsins fór fram og var sleppt að loknum yfirheyrslum daginn eftir.

 

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert