Adhiban í lykilstöðu

Richard Rapport (t.h.) og Bask­ar­an Adhiban (t.v.) áttust við á …
Richard Rapport (t.h.) og Bask­ar­an Adhiban (t.v.) áttust við á Reykjavíkurskákmóti GAMMA í dag. Ljósmynd/Skáksamband Íslands

Mikið var um að vera í áttundu og næstsíðustu umferð GAMMA Reykjavíkurskákmótsins sem fram fór í dag. Fyrir umferðina voru Richard Rapport og Bask­ar­an Adhiban efstir með 6 vinninga af 7.

„Menn voru spenntir fyrir baráttuskák á milli þessarar frumlegu og skemmtilegu skákmanna. Mjög óvænt þá lék Rapport skelfilega af sér snemma í skákinni og átti enga möguleika og varð þetta ein af fyrstu skákunum í umferðinni til að klárast,“ segir í frétt Skáksambandsins.  

Eina skákin sem kláraðist fyrr var þegar indverska ungstirnið Nihal Sarin þrálék gegn andstæðingi sínum til að þvinga fram jafntefli. 

Adhiban er í algjörri lykilstöðu fyrir lokaumferðina og ljóst að jafntefli mun nægja honum til að vinna GAMMA Reykjavíkurskákmótið í ár. 

Hannes Hlífar Stefánsson er efstur Íslendinga með 6 vinninga af 8 og gæti mögulega náð Adhiban að vinningum og náð skiptu efstu sæti. Hannes er í stórum hópi skákmanna vinningi á eftir Adhiban. Jóhann Hjartarson og Þröstur Þórhallsson hefðu mögulega getað náð Hannesi að vinningum en töpuðu sínum skákum gegn sterkum stórmeisturum.

GAMMA framlengir styrktarsamning við mótið

„Mikil gleðitíðindi voru tilkynnt í dag þegar GAMMA framlengdi styrktarsamning sinn við mótið til þriggja ára en GAMMA Reykjavíkurskákmótið hefur verið haldið undanfarin fimm ár með GAMMA sem aðalstyrktaraðila og glæsilegan mótsstað í Hörpu,“ segir í frétt Skáksambandsins. 

Samningar hafa einnig náðst við Hörpu um að mótið verði næstu þrjú ár í Hörpu. „Þetta eru stórgóðar fréttir fyrir skákhreyfinguna en Reykjavíkurskákmótið er flaggskip hreyfingarinnar og hefur róður þess vaxið mikið í skákheiminum og iðulega hefur mótið verið kosið eitt af þremur bestu opnum mótum heims ár hvert,“ segir jafnframt í frétt sambandsins. 

Níunda og síðasta umferðin á GAMMA Reykjavíkurskákmótinu í ár hefst klukkan 11 á morgun, miðvikudag. Hart verður barist um verðlaunasæti og áfanga að titlum og eru áhorfendur velkomnir á skákstað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert