Fara til Rostov í stað Moskvu

Íslenska landsliðið fagnar eftir að hafa tryggt sér farseðilinn til …
Íslenska landsliðið fagnar eftir að hafa tryggt sér farseðilinn til Rússlands með sigri á Kosovo á Laugardalsvelli. mbl.is/Golli

Í kringum fimmtíu manns hafa afpantað pakkaferð sína til Moskvu á HM í knattspyrnu á vegum Gamanferða vegna þess að þeir fengu ekki miða á leik Íslands og Argentínu en mikil eftirspurn hefur verið eftir miðum á þann leik.

Að sögn Þórs Bæring Ólafssonar hjá Gamanferðum höfðu tæplega 300 manns pantað ferð til Moskvu og hafa flestir af þessum fimmtíu sem fengu ekki miða á leikinn ákveðið að færa sig yfir á leik Íslands og Króatíu sem verður spilaður í borginni Rostov 26. júní. Það verður síðasti leikur Íslands í riðlinum. Fyrsti leikurinn verður gegn Argentínu og annar leikurinn gegn Nígeríu.

Þór segir að enn séu til miðar á leikinn gegn Króatíu, ásamt flugi og gistingu.

„Flestir okkar kúnnar virðast vera að færa sig yfir á þann leik. Það vilja allir upplifa að fara á HM. Það var mikið gert úr þessum fyrsta leik en núna held ég að fólk sé að átta sig á því að síðasti leikurinn er líka gríðarlega mikilvægur. Maður veit aldrei hvort þetta verður úrslitaleikur um sæti í 16-liða úrslitum eða hvað,“ segir hann.

Hvað leikinn gegn Nígeríu varðar segir Þór að erfitt sé að ná sér í flug og hótel til Volgograd þar sem leikurinn verður spilaður og því sé leikurinn gegn Króatíu besti kosturinn eins og staðan er núna.

Þór Bæring Ólafsson, framkvæmdastjóri Gamanferða.
Þór Bæring Ólafsson, framkvæmdastjóri Gamanferða. Ljósmynd/Þór Bæring

600-700 manns til Rússlands

Alls eru um 600 til 700 manns á leiðinni á HM í Rússlandi í sumar á vegum Gamanferða. Það er ekki eins mikill fjöldi og fór á vegum fyrirtækisins á EM í Frakklandi þegar um 1.000 Íslendingar fóru.

Þór gagnrýnir hversu langan tíma hefur tekið fyrir fólk að fá að vita hvort það fær miða á HM eða ekki. Fólk sé rétt núna að fá staðfestingu á því á meðan allt hafi verið klárt varðandi miðamálin í byrjun janúar vegna EM í Frakklandi.

Greint var frá því fyrir nokkru að verð á hótelherbergjum hefði hækkað mikið í Rússlandi vegna HM og sumir sem þegar höfðu keypt gistingu í landinu hefðu fengið tilkynningu um að verðið hafi verið hækkað. „Þetta var smá maus í upphafi en þetta er allt komið í lag núna,“ segir Þór og bendir á að ferðaskrifstofan skipti núna við rússneskt fyrirtæki sem annist þessa hluti fyrir hana. Það samstarf hafi gengið mjög vel.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert