Snæddi hádegisverð með Hawking

Stephen Hawking árið 2015.
Stephen Hawking árið 2015. AFP

Kristján Rúnar Kristjánsson, doktor í eðlisfræði og starfsmaður í áhættustýringu hjá Íslandsbanka, hitti breska eðlisfræðinginn og heimsfræðinginn Stephen Hawking í Kína árið 2006 en Hawking lést í nótt á heimili sínu í Cambridge.

Kristján Rúnar starfaði á þessum tíma í Kaupmannahöfn hjá Nordita, sem er norræn stofnun um fræðilega eðlisfræði, við rannsóknir á svartholum. Doktorsritgerð hans við raunvísindadeild Háskóla Íslands fjallaði einmitt um þau.

Settist við hliðina á Hawking

Aðspurður segist Kristján Rúnar hafa verið á stórri strengjafræðiráðstefnu í Peking, höfuðborg Kína, á vegum Nordita þar sem Hawking var einn af aðalfyrirlesurunum.

Eftir fyrirlesturinn var haldinn sameiginlegur hádegismatur fyrir ráðstefnugesti og mættu Kristján og sænskur samstarfsmaður hans seint í matinn. Vegna þess að öll sæti voru upptekin nema við borð Hawking var þeim óvænt vísað til sætis við hliðina á honum. Hjá honum sat aðstoðarmanneskja hans sem hjálpaði honum að borða.

Nelson Mandela og Stephen Hawking árið 2008.
Nelson Mandela og Stephen Hawking árið 2008. AFP

Ræddu um eðlisfræði og svarthol

„Við vorum svolítið feimnir og ætluðum ekki að þora að setjast þarna," segir Kristján en þeir sátu saman við borðið í um klukkustund og fór vel á með þeim. „Við vorum að tala um eðlisfræði og svarthol. Á þessum tíma var hann líka mikið að hugsa um hvort það sé vistmunalíf annars staðar í heiminum,“ greinir hann frá en bætir við að erfitt hafi verið að tala við Hawking vegna þess hve lengi hann var að svara spurningunum.

„Maður spurði að einhverju og hann þurfti þá að nota stafavélina sína til að stafa út orðin, þannig að maður var eiginlega búinn að gleyma því um hvað maður var að tala þegar svarið kom,“ segir hann og hlær.

Nemandi heldur á blómvendi á meðan aðrir nemendur bíða í …
Nemandi heldur á blómvendi á meðan aðrir nemendur bíða í röð eftir því að geta skrifað í minningarbók um Stephen Hawking í Cambridge-háskóla. Þar starfaði hann í yfir 50 ár. AFP

Stórmerkilegt framlag Hawking

Kristján Rúnar segir hádegisverðinn með Hawking hafa verið mjög eftirminnilegan, enda hafi breski eðlisfræðingurinn verið orðinn afar þekktur á þessum tíma og þeir hafi litið mjög upp til hans. Um þetta leyti var Kristján nýbúinn að ljúka við doktorsprófið sitt, þar sem hann hafði meðal annars verið að rannsaka Hawking-geislun sem er er eitt af því sem Stephen Hawking á heiðurinn af. Sú kenning gengur út á að svarthol hafi hitastig.

Barack Obama, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, veitti Hawking Frelsisorðuna árið 2009.
Barack Obama, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, veitti Hawking Frelsisorðuna árið 2009. AFP

Aðspurður segir Kristján framlag Hawking til eðlisfræðinnar vera stórmerkilegt. Bæði hvað varðar fræðin sjálf og einnig hvernig hann vakti áhuga almennings á fræðilegri eðlisfræði, með því meðal annars að skrifa aðgengilegar bækur. Sjálfur las Kristján bækurnar hans áður en hann ákvað sjálfur að læra eðlisfræði og telur hann að Hawking hafi haft sín áhrif á að hann ákvað að leggja stund á fagið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert