Tekjulágir fái meiri aðstoð

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/​Hari

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir stjórnvöld reiðubúin að breyta skattkerfinu til að bæta kjör lágtekjuhópa í samfélaginu.

„Við höfum þegar boðað að eiga samstarf við verkalýðshreyfinguna og aðila vinnumarkaðarins um skattkerfisbreytingar. Við höfum boðað að við séum reiðubúin að létta skattbyrði af tekjulægri hópum með einhverjum hætti,“ segir Katrín.

Tilefnið eru ummæli Ragnars Þórs Ingólfssonar, formanns VR, í Morgunblaðinu í gær um skilyrði komandi kjarasamninga. Verði skatta- og lánakerfinu ekki breytt í þágu tekjulágra verði krafist sömu hækkana og hjá kjararáði. Verði ekki orðið við því verði verkfallsvopnið dregið fram.

Vísar til fyrri yfirlýsinga

Spurð um slík skilyrði ítrekar Katrín yfirlýsingar stjórnvalda.

„Það kemur fram í stjórnarsáttmála, og í yfirlýsingunni sem við sendum frá okkur í kringum endurskoðun samninga, að við erum tilbúin að eiga þetta samstarf og skoða um leið samspil skattkerfisins og bótakerfisins í þágu tekjulægri hópa. Ég hef lagt áherslu á að eiga gott samstarf við aðila vinnumarkaðarins. Ég vil ekki setja þetta í skilyrða- eða hótanasamhengi. Heldur finnst mér mikilvægt fyrir okkur öll í þessu samfélagi að stjórnvöld eigi gott samstarf við aðila vinnumarkaðarins um mál sem lúta að ábyrgum vinnumarkaði og kjörum fólks í landinu. Þar geta stjórnvöld lagt sitt af mörkum í gegnum skattkerfið og bótakerfið. Þá er ég að tala um barnabætur og húsnæðisstuðning,“ segir Katrín.

Spurð hvernig samstarfsflokkarnir, einkum Sjálfstæðisflokkur, taka í slíkar hugmyndir minnir Katrín á að yfirlýsingin sé gefin út sameiginlega af ríkisstjórnarflokkunum. Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, muni leiða samtalið við aðila vinnumarkaðarins um endurskoðun á tekjuskattskerfinu.

Ragnar Þór nefndi í áðurnefndu viðtali að fjármagna mætti breytingar á persónuafslætti í þágu tekjulágra með því að færa til byrðar. Nefndi hann þar auðlindagjald og hátekju- og fjármagnstekjuskatt.

Vilji stjórnvalda er skýr

Katrín kveðst reiðubúin að skoða ýmsar leiðir til að fjármagna breytingar á skattkerfinu. Niðurstaða úr samtali ríkisstjórnarinnar við verkalýðshreyfinguna og aðila vinnumarkaðarins muni liggja fyrir í haust. 

„Við sjáum fyrir okkur einhverjar slíkar breytingar, ef sátt skapast um þær, við afgreiðslu næstu fjárlaga. Ég ætla hins vegar ekki að gefa mér niðurstöðuna úr samtalinu áður en það á sér stað. En okkar vilji liggur alveg skýr fyrir. Við höfum átt marga fundi með forystumönnum verkalýðshreyfingarinnar, og þar á meðal Ragnari Þór, og hlustað eftir því sem hann hefur lagt áherslu á, sem er að horfa til skattkerfisins.“

Ásamt því að krefjast breytinga á skatta- og lánakerfinu kallar Ragnar Þór eftir aðgerðum vegna starfsmannaleiga. Gagnrýnir hann útvistun starfsfólks sem hafi lægri laun og minni réttindi en fastráðið fólk.

Taka á starfsmannaleigum

Katrín telur aðspurð hægt að breyta reglum um starfsmannaleigur, þrátt fyrir skuldbindingar Íslands gagnvart EES-samningnum. Leigurnar starfa á grundvelli hans.

Fyrstu skrefin í lagasetningu hafi verið stigin á síðasta þingi varðandi keðjuábyrgð.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert