Styrkja 128 innviðaverkefni í ferðaþjónustu

Þórdís Kolbrún og Guðmundur Ingi tilkynntu sameiginlega um fjárveitingar til …
Þórdís Kolbrún og Guðmundur Ingi tilkynntu sameiginlega um fjárveitingar til innviðauppbyggingar ferðamannastaða í dag. mbl.is/Hari

Ríflega 2,8 milljörðum verður úthlutað til alls 128 verkefna á ferðamannastöðum um land allt, en þau Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ráðherra ferðamála, og Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra kynntu úthlutanirnar á sameiginlegum blaðamannafundi í Norræna húsinu laust eftir hádegi í dag.

Um er að ræða tvær aðskildar úthlutanir. Annars vegar 2.080 milljóna króna úthlutun til þriggja ára vegna verkefnaáætlunar Landsáætlunar um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum á vegum umhverfis- og auðlindaráðuneytisins og hins vegar 772 milljóna króna úthlutun fyrir árið 2018 úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða, sem heyrir undir atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið.

Þórdís Kolbrún segir að hún og Guðmundur Ingi hafi ákveðið að tilkynna sameiginlega um úthlutanirnar til þess að „sýna stærri mynd og meiri heildarmynd“ í því sem þau eru að gera.

„Við erum að horfa á þetta saman,“ segir Þórdís Kolbrún en nú er það í fyrsta skipti svo að úthlutanir úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða fara einungis til verkefna á ferðamannastöðum sem eru í eigu sveitarfélaga, einkaaðila eða einstaklinga. Á móti falla verkefni á svæðum sem eru í eigu ríkisins undir stefnumarkandi landsáætlun umhverfis- og auðlindaráðuneytisins.

„Þegar við horfum á þetta saman og sjáum þessa langtímasýn í landsáætluninni þá finnst mér þetta vera ákveðin tímamót í því hvernig við lítum á uppbyggingarþörf og forgangsröðun þar, með tilliti til þeirra sem skipta okkur helstu máli sem eru náttúruverndin, minjavernd, öryggi og að dreifa ferðamönnum víðar um landið – fjölga seglum,“ segir Þórdís.

Hér má sjá hvernig verkefnin dreifast um landið.
Hér má sjá hvernig verkefnin dreifast um landið. Kort/Vefsíða stjórnarráðsins

Guðmundur Ingi tekur í sama streng. „Ráðuneytin okkar hafa verið að vinna þetta þannig að það hefur verið fulltrúi úr hvoru ráðuneyti í þessum verkefnisstjórnum sem hafa verið að vinna þessar tillögur og vinna úr styrkumsóknum. Okkur þótti eðlilegt að kynna þetta sem eina heild, enda er landið eitt og verkefnið sameiginlegt.“

Ráðherrarnir undirrituðu í dag samning um að leggja fjármagn í „óstaðbundin áhersluverkefni,“ meðal annars það að auka sérþekkingu á uppbyggingu og hönnun þeirra innviða sem byggðir eru til þess að þeir falli sem best að landslagi hvers staðar og stuðli að jákvæðri upplifun gesta.

Aukið fjármagn til landvörslu

Af fyrrnefndu úthlutuninni, sem er fyrir árin 2018-2020, fara 1.490 milljónir til efnislegra innviða á 71 ferðamannastað og einni ferðamannaleið – gönguleiðinni um Laugaveg. Þá er gert er ráð fyrir 320 milljóna króna fjárveitingu til landvörslu, sem er að sögn Guðmundar Inga nokkur viðbót við það sem verið hefur.

„Landvarslan er gríðarlega mikilvægt atriði þegar kemur að náttúruvernd þessara svæða og upplifun ferðamanna. Landverðirnir eru þarna til þess að fræða um náttúruna og umgengni og stýra fólki á rétta staði. Ég held að það auki oft jákvæða upplifun ferðafólks að fá að vita meira um staðinn sem það er að heimsækja,“ segir Guðmundur Ingi.

200 milljónum verður svo ekki ráðstafað strax, heldur er þeim að hluta ætlað að mæta óvæntum áskorunum á núverandi stöðum eða þá nýjum svæðum sem hugsanlega gætu þurft fjárveitingu að seinni árum áætlunarinnar.

Hæstu einstöku styrkirnir í verkefnaáætluninni renna til framkvæmda við Gullfoss þar sem rúm 161 milljón króna fer í afmarkaða uppbyggingu, viðhald og öryggisaðgerðir og 110 milljónir fara til uppbyggingar vestan við Dettifoss.

Nánar má fræðast um úthlutun til einstakra verkefna Landsáætlunar hér

Áhersla á að dreifa ferðamönnum um landið

Úthlutun Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða fer til 56 mismunandi verkefna á vegum áhugamannafélaga, fyrirtækja, einstakra landeigenda og sveitarfélaga. Fram kom í máli Þórdísar Kolbrúnar við kynninguna að 21 þessara verkefna væri sérstaklega ætlað til þess að dreifa ferðamönnum til minna sóttra svæða, auk þess sem 15 verkefni lytu að því að að bæta öryggi á ferðamannastöðum.

Ráðherra sagðist vonast til þess að í framtíðinni gæfist tækifæri til þess að minnka framlög ríkisins til Framkvæmdasjóðs ferðamanna. Vaxtarverkir væru í samfélaginu vegna mikillar  í fjölgunar ferðamanna og að það hefði skapað ný verkefni sem ríkið þyrfti að sinna.

„Þetta hér er viðbragð, en svo vonumst við til þess að það þurfi ekki 700 milljónir af fjármunum skattgreiðenda í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða um ókomna tíð, heldur séum við að horfa á ákveðið ástand og að við séum að bregðast við þessum mikla vexti,“ sagði Þórdís Kolbrún.

„Ég er alveg tilbúinn að taka við þessum 700 milljónum ef þú vilt þær ekki,“ svaraði Guðmundur Ingi þá kíminn.

Þórdís Kolbrún sagði að aukinn straumur ferðamanna hefði skapað mörg …
Þórdís Kolbrún sagði að aukinn straumur ferðamanna hefði skapað mörg verkefni sem ríkið þyrfti að bregðast við. mbl.is/Hari

Stærstu úthlutanirnar úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða renna til sveitarfélaganna Borgarfjarðarhrepps og Þingeyjarsveitar. Tæpar 77 milljónir fara til Borgarfjarðar vegna byggingar þjónustuhúss við Hafnarhólma sem mun stórbæta aðstöðu til fuglaskoðunar á svæðinu og 74 milljónir fara til endurbóta á umhverfi Goðafoss til að bæta þar aðgengi og öryggi ferðamanna.

Úthlutun framkvæmdasjóðs ferðamannastaða fyrir árið 2018

Tækifæri í aukinni friðlýsingu svæða

Umhverfisráðherra minntist á það í kynningunni að ekki yrði farið í uppbyggingu innviða á öllum stöðum, þar sem sum svæði væru einfaldlega þess eðlis að aðdráttarafl þeirra væri hin ósnortna náttúra. Stýra þyrfti aðgengi að slíkum svæðum með öðrum leiðum.

Í samtali við mbl.is segir hann að vannýtt tækifæri séu varðandi friðlýsingu svæða og að fleiri þjóðgarðar geti verið einn þáttur í því að dreifa ferðamönnum betur um landið.

„Það er þá ákveðinn stimpill sem þessi svæði fá og draga þannig að sér fleiri ferðamenn. Við erum að sjá rannsóknir erlendis sem eru að sýna, eins og í Finnlandi að fyrir hverja evru sem fer í finnska þjóðgarða skili tíu evrur sér til baka í finnska þjóðarbúið. Við höfum eina rannsókn um þetta á Íslandi, sem er fyrir Snæfellsjökulsþjóðgarð og hún er að sýna að fyrir hverja krónu sem fer inn koma 58 til baka til þjóðarbúsins. Sú rannsókn sýnir 3,9 milljarða króna árlega upphæð sem fer í þjóðarbúið og þar af verður um helmingurinn eftir á Snæfellsnesinu sjálfu,“ segir Guðmundur Ingi.

Hann segir að vannýtt tækifæri felist í því að kynna kosti friðlýstra svæða sem byggðaaðgerða og segist hlakka til að takast á við það verkefni, sem mikilvægt sé að vinna í góðri samvinnu við sveitarstjórnir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert