Komið til móts við gagnrýni

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/Hari

Til stendur að fara yfir gagnrýni sem komið hefur fram á reglugerð um útlendingamál sem Sigríður Andersen dómsmálaráðherra undirritaði á dögunun og kanna hvernig hægt verður að koma til móts við hana. Þetta kom fram í máli Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra á Alþingi í dag þar sem hún svaraði fyrirspurn frá Loga Má Einarssyni, formanni Samfylkingarinnar.

Logi gagnrýndi reglugerðina harðlega og sagði þar gengið á rétt barna í röðum hælisleitenda. Katrín sagðist aðspurð ekki hafa vitað af reglugerðinni fyrirfram en gat þess hins vegar að reglugerðin hefði hins vegar verið sett í opið samráðsferli. Forsætisráðuneytið hefði óskað eftir samtali við dómsmálaráðuneytið um gagnrýnina meðal annars frá Rauða krossi Íslands.

Katrín lagði áherslu á að mannúð væri inntakið í gildandi útlendingalögum og mannúð yrði áfram höfð að leiðarljósi í málaflokknum. Spurð hvað liði fyrirhugaðri þverpólitískri nefnd um útlendingamál benti Katrín á að flokkarnir hefðu ekki allir enn tilnefnt fulltrúa í nefndina, þar á meðal Píratar og Miðflokkurinn. Hún vænti þess hins vegar að af því yrði innan skamms.

Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar.
Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert