Sagði skyldu okkar að verja náttúruna

Ólafur Ísleifsson, þingmaður Flokks fólksins.
Ólafur Ísleifsson, þingmaður Flokks fólksins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Náttúra landsins er auðlind í sjálfu sér og felur í sér mikil verðmæti fyrir þjóðina og heiminn allan. Skyldur okkar gagnvart náttúrunni og ábyrgð eru því miklar,“ sagði Ólafur Ísleifsson, þingmaður Flokks fólksins, á Alþingi í dag. Hann spurði Katrínu Jakobsdóttir forsætisráðherra út í fyrirhugaða Hvalárvirkjun á Ströndum.

Ég dreg ekki í efa mikilvægi afhendingaröryggis raforku á Vestfjörðum en bendi á að aðrar leiðir eru færar til þess að tryggja íbúum Vestfjarða örugga afhendingu á raforku en að stórspilla náttúrunni með því að virkja Hvalá á Ströndum,“ sagði Ólafur og spurði hvort ríkisstjórn undir forystu Katrínar myndi láta náttúruna njóta vafans.

Katrín sagðist sammála Ólafi um að náttúrufegurðin á hálendi Vestfjarðar væri mikil. „Ég verð þó að rifja það upp að Hvalárvirkjun var skipað í nýtingarflokk rammaáætlunar, við annan áfanga rammaáætlunar, sem var afgreidd hér á Alþingi ef ég man rétt þingveturinn 2012–2013,“ sagði Katrín.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ég hef sagt það hér og ég hef ekki skipt um skoðun á því að ég hef lýst áhyggjum yfir því að þegar Alþingi gengur frá flokkun virkjunarkosta þá er í raun og veru veruleg vinna eftir við mat á umhverfisáhrifum en Alþingi fær ekki aftur þessa ákvörðun til sín. Ferillinn sem við höfum komið okkur saman um hér er þessi,“ sagði Katrín og bætti við að það væri eðlilegt að taka þetta samtal, ekki bara um Hvalárvirkjun heldur almennt.

Ólafur kom aftur í pontu, sagðist hafa vonast eftir eindregnari stuðningi ráðherra við þetta mikilvæga málefni og hvatti Katrínu til að á hennar vakt yrðu þessi mikilvægu náttúruauðæfi varin.

Katrín benti á að hún hefði greitt atkvæði gegn Hvammsvirkjun, þegar lagt var til að hún færi í nýtingarflokk. Um leið bæri hún hins vegar virðingu fyrir skoðunum meirihlutans á þingi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert