Þarf að hækka laun til að auka nýliðun

Kátir leikskólanemendur á Akureyri.
Kátir leikskólanemendur á Akureyri. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

„Laun leikskólakennara þurfa og eiga að vera hærri ef takast á að auka nýliðun. Það er því miður svo að menntun á Íslandi er almennt ekki metin nægilega vel til launa,“ segir Haraldur Freyr Gíslason, formaður Félags leikskólakennara, í skriflegu svari til mbl.is spurður um laun starfsstéttarinnar.

Ummæli Skúla Helgasonar, formanns leikskóla- og frístundaráðs Reykjavíkurborgar, í Kastljósi í gær þess efnis að laun leikskólakennara væru hærri en almenningur teldi og að þau hefðu hækkað um 88% frá árinu 2011 vöktu þó nokkra athygli á samfélagsmiðlum.

Laun leikskólakennara hafa hækkað um 88% en 52% í raunlaunum miðað við verðlag desember 2016 frá árunum 2011 til 2017. Byrjunarlaun nýútskrifaðs leikskólakennara með meistarapróf eru nú 465.155 kr. og 490.238 kr. ef viðkomandi sinnir deildarstjórn. Þau hækka eftir starfsaldri, samkvæmt gögnum frá Félagi leikskólakennara.  

Vísbendingar eru um í opinberum launagögnum að laun leikskólakennara séu að ná meðaltali dagvinnulauna annarra sérfræðinga sem starfa hjá sveitarfélögunum. Þrátt fyrir það sýna launagögn Hagstofunnar frá 2016 að meðal regluleg laun leikskólakennara ná ekki meðallaunum í landinu, að sögn Haraldar.

„Það þarf að fjölga leikskólakennurum

„Vandinn í stóra samhenginu er að það þarf að fjölga leikskólakennurum. Sá vandi er djúpstæður,“ segir Haraldur. Það vantar leikskólakennara til að uppfylla lög 87/2008 um menntun og ráðningu kennara sem kveður á um að 2/3 hlutar þeirra sem sinna menntun og uppeldi barna eigi að hafa leyfisbréf til kennslu á leikskólastigi. Leikskólar hafa því þurft á hverju hausti að manna stöður leikskólakennara með leiðbeinendum.

Í þessu samhengi bendir Haraldur á að leikskólastigið hefur þróast hratt sem skólastig og í raun allt of hratt til þess að geta staðið almennilega undir sér. „Ákvarðanir samfélagsins um að taka sífellt inn yngri og yngri börn án þess að hugsa málið fyllilega til enda hefur aukið á vandann og komið okkur öllum í erfiða stöðu. Leikskólafólk er því oft milli steins og sleggju,“ segir Haraldur.

Hann tekur fram að við þurfum jafnframt að spyrja okkur þeirrar spurningar hvort ekki sé skynsamleg að hægja á vexti leikskólastigsins meðan við aukum nýliðun.

„Skortur á leikskólakennurum er ekkert nýtt vandamál. Það er ljóst að samfélagið þarf að gera betur til að hlúa að leikskólakennurum og auka nýliðun sem er algjörlega grunnforsendan fyrir því að hægt sé að brúa bilið á milli fæðingarorlofs og leikskólans,“ segir Haraldur. 

Haraldur Freyr Gíslason, formaður Félags leikskólakennara.
Haraldur Freyr Gíslason, formaður Félags leikskólakennara. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka