Framkvæmdaleyfi vegna Lyklafellslínu ógilt

Lyklafellslína er fjólublá á myndinni.
Lyklafellslína er fjólublá á myndinni. Kort/Landsnet

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála ógilti í dag framkvæmdaleyfi sem Hafnarfjarðarkaupstaður gaf út til Landsnets vegna Lyklafellslínu 1. Bæjarstjóri Hafnarfjarðar segir ákvörðun nefndarinnar áfall.

Hafn­ar­fjörður og Mos­fells­bær hafa fyr­ir sitt leyti veitt Landsneti leyfi til fram­kvæmda við um­rædda línu, sem áður hét Sand­skeiðslína. Um er að ræða há­spennu­línu sem ligg­ur frá Mos­fells­bæ að ál­ver­inu í Straums­vík. Lín­an mun liggja í námunda við vatns­ból höfuðborg­ar­svæðis­ins og er for­senda þess að hægt verði að rífa niður Hamra­nes­línu 1 og 2, lín­ur sem liggja mjög ná­lægt byggð.

Segir úrskurðinn áfall fyrir Hafnarfjarðarbæ

Hraunavinir og Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands kærðu veitingu framkvæmdaleyfisins. „Úrskurðurinn er áfall fyrir sveitarfélagið og ljóst að áratuga bið eftir því að línurnar hverfi úr Skarðshlíð og Hamranesi styttist ekki við þennan úrskurð,“ er haft eftir Haraldi L. Haraldssyni bæjarstjóra í tilkynningu frá Hafnarfjarðarbæ.

Haraldur krefur Landsnet um svör um með hvaða hætti verkefnið muni halda áfram. „En það er ljóst að þetta þolir enga bið og bæjarbúar og bæjaryfirvöld vilja þessar línur burtu,“ segir Haraldur. Bæjarstjórn fundar með fulltrúum Landsnets í fyrramálið.

Hafnarfjarðarkaupstaður hefur fjárfest í mikilli uppbyggingu á svæðinu ásamt lóðarhöfum á svæðinu en gert er ráð fyrir um 520 íbúðum í Skarðshlíðarhverfinu einu og sér og þar er verið að byggja grunn- leik- og tónlistarskóla ásamt íþróttasal fyrir um fjóra milljarða króna.

„Virðist ógilding framkvæmdaleyfisins fyrst og fremst vera byggð á þeirri forsendu að ekki sé sýnt fram á að jarðstrengskostir séu ekki raunhæfir og samanburður á umhverfisáhrifum þeirra og aðal valkosts hafi ekki farið fram með þeim hætti sem lög gera ráð fyrir. Línan hefur verið á framkvæmdaáætlun kerfisáætlunar 2015-2024 og því samþykkt af Orkustofnun. Framkvæmdin hafði einnig farið í gegnum mat á umhverfisáhrifum,“ segir í tilkynningu.

„Við förum núna í það að kanna stöðu sveitarfélagsins í þessu máli og næstu skref en þetta eru ekki þær fréttir sem við hefðum vonað að fá frá úrskurðarnefndinni. Um leið og við hörmum þetta erum við ekki að gera lítið úr áhyggjum kærenda,“ segir Haraldur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert