Tekur ugluna með sér heim á kvöldin

Uglan er ófleyg en virðist vera óslösuð.
Uglan er ófleyg en virðist vera óslösuð.

Á Dýraspítalanum í Garðabæ dvelur nú brandugla í góðu yfirlæti. Um ungan fugl virðist vera að ræða sem fannst við Laxá í Leirársveit, en hann er ófleygur. Kristbjörg Sara Thorarensen dýralæknir hallast að því að uglan sé veikburða því hún hafi ekki ná að veiða sér til matar.

„Hún virðist óslösuð en mig grunar að hún hafi ekki náð að veiða og sé því grönn. Hún hafi smám saman verið að veslast upp,“ segir Kristbjörg í samtali við mbl.is. Uglan, sem ekki hefur fengið nafn, virðist þó strax vera farin að braggast.

„Ég þurfti að þvinga ofan í hana í gær þegar hún kom en hún er farin að taka við sér sjálf. Ég ætla að gefa henni tækifæri til að jafna sig og kanna betur hvort það séu brot í vængjum eða eitthvað svoleiðis. Það virðist þó ekki vera og það eru engin sár á henni.“

Kristbjörg gerir ráð fyrir að uglan verði í fæði og húsnæði á dýraspítalanum í einhvern tíma, en hún tekur hana með sér heim eftir vinnu á daginn, enda þarf að halda matnum vel að henni. „Það þarf að gefa henni oft á dag og langt fram á kvöld. Hún fær fínt nautagúllas.“

Vön að vera með fullt hús af fuglum

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Kristbjörg tekur dýr með sér heim til að hlúa að þeim. „Ég var nýlega með gæs og álft. Á sumrin er ég svo með allt fullt af ungum í fæði. Ég er með stórt búri úti í garði sem ég kem til með að setja ugluna í þegar veður leyfir og hún er aðeins orðin hressari,“ segir Kristbjörg en hún telur betra að hafa hana inni fyrst um sinn, á meðan hún er að ná upp þeim fituforða sem hún þarf til að halda á sér hita.

Hún segir ugluna frekar hvekkta og fær hún því að vera alveg í friði nema þegar henni er gefið að éta. Aðspurð segir hún uglur í raun ekki geta lært að vera í kringum fólk ef þær eru upphaflega villtar og hafa lifað úti í náttúrunni. „Þetta eru ekki aðstæður sem þær vilja vera í, en þær sætta sig kannski við þetta í smá tíma. Ég er því ekki að fara að halda henni ef hún kemst ekki út í náttúruna til að bjarga sér sjálf. Það er ekkert líf fyrir svona villta fugla að vera lokaða einhvers staðar inni,“ segir Kristbjörg sem telur þó góðar líkur á því, eins og staðan er núna, að uglan nái sér á strik.

Brandugla er eina uglan sem verpir hér á landi að staðaldri og finnst því í einhverju mæli í íslenskri náttúru. Hagamýs eru aðalfæða branduglu en þær veiða einnig smáfugla og unga. Branduglum hefur fjölgað hér á landi eftir að kornrækt jókst, en samhliða kornræktinni fjölgar músum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert