Skíði og rokk blandan að páskaævintýrinu

Aldrei fór ég suður er haldin í fimmtánda sinn núna …
Aldrei fór ég suður er haldin í fimmtánda sinn núna um páskana. Mynd úr safni. mbl.is/Halldór Sveinbjörnsson

Kampaskemman eða „Aldrei-skemman“ á Ísafirði er þessa stundina troðfull af fólki, enda tónlistarhátíðin Aldrei fór ég suður hafin í fimmtánda sinn. Ataria, sigursveit Músíktilrauna 2018, opnaði kvöldið kl. 19:30 og síðan þá hefur áhorfendahópurinn stækkað með hverri mínútunni.

Kristján Freyr Halldórsson rokkstjóri segir í samtali við mbl.is að hátíðin sé orðin sannkallaður páskaviðkomustaður landans, en múgur og margmenni er ávallt á Ísafirði og í nærliggjandi bæjum þegar hátíðin stendur yfir um páskana.

 „Skíði og rokk eru blandan að páskaævintýrinu hérna fyrir vestan,“ segir Kristján Freyr og lýsir því hvernig hátíðin hafi fyrstu árin virkað sem vítamínsprauta fyrir Skíðavikuna á Ísafirði, en síðan hafi dæmið eiginlega snúist við, nú sé Skíðavikan orðin svo öflug og vel markaðssett að það sé að einhverju leyti hún sem sé að toga fólk vestur um páskana.

Fjöldi fólks hefur verið á skíðum á Ísafirði undanfarna tvo daga og veðurspáin er góð fyrir helgina. „Fólk fer í „aprés-ski“ einhvers staðar niðri í bæ fyrir kvöldmat og svo kemur það til okkar á tónleika,“ segir Kristján Freyr.

Hægt er að fylgjast með tónleikunum í beinni á vef RÚV.

mbl.is