Frægar lögsóknir vegna höfundaréttar

Jóhann Helgason (t.h.) ásamt Magnúsi Þór Sigmundssyni. Jóhann ætlar í …
Jóhann Helgason (t.h.) ásamt Magnúsi Þór Sigmundssyni. Jóhann ætlar í hart vegna höfundarréttarmála. mbl.is/Einar Falur Ingólfsson

Mörg dæmi eru um lögsóknir vegna höfundarréttarmála í poppsögunni en Jóhann Helgason hyggst láta reyna á lögin vegna lagsins „You Raise Me Up“ eftir Norðmanninn Rolf Løvland vegna líkinda við lag hans Söknuð“. mbl.is rifjaði upp nokkur þekkt mál.

Árið 1963 fór Chuck Berry í mál við Brian Wilson og The Beach Boys vegna lagsins „Surfin' U.S.A.“ vegna augljósra líkinda við rokksmellinn „Sweet little sixteen“ eftir guðföður rokksins. Það var auðsótt og áður en til málaferla kom samþykkti Wilson og faðir hans Murray Wilson, sem hélt utan um mál hljómsveitarinnar, að Berry yrði titlaður höfundur lagsins og fá tekjur af því. 


Bresku rokkararnir í Led Zeppelin vísuðu gjarnan í gamla blús-standarda í lögum sínum og blúsarinn Willie Dixon hótaði lögsókn vegna tveggja laga af plötunni II frá árinu 1969. Það voru lögin „Bring it on home“ sem þótti líkjast samnefndu lagi í flutningi Sonny Boy Williamson. Þá voru textabrot úr laginu „You need love“ sem Muddy Waters flutti í laginu „Whole lotta love“. Aftur var sæst á að deila höfundarrétti og greiðslum.

Önnur þekkt mál eru: 

„My sweet lord“ eftir George Harrison sem þótti hafa stundað „ómeðvitaðan ritstuld“ og sótt í lagið „He's so fine“ sem The Chiffons gerðu frægt og þurfti að deila greiðslum með Ronnie Mack höfundi lagsins.

Ray Parker Jr. sem samdi titillag myndarinnar Ghostbusters þótti lagið „I want a new drug“ með Huey Lewis and the News vera of líkt Draugabana-smellinum sínum. Hann sótti rétt sinn og hafði betur.

Radiohead á sviði í Laugardalshöllinni.
Radiohead á sviði í Laugardalshöllinni. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Nýlega voru gerðar athugasemdir við líkindi á milli „Creep“ með Radiohead sem Lana Del Rey þykir stæla í laginu sínu „Get free“. Ekki hefur niðurstaða í því máli verið gerð opinber þó söngkonan hafi ýjað að því á tónleikum fyrir skömmu að lending hefði náðst. Það er þó nokkuð kómískt að á sínum tíma voru Thom Yorke og félagar lögsóttir vegna augljósra líkinda við Hollies lagið „The air that I breathe“. Þeir töpuðu því máli og deila höfundarrétti með Hollies. Það er því komin upp nokkuð flókin staða þar.     

Lítið hefur heyrst í Robert Van Winkle eða Vanilla Ice …
Lítið hefur heyrst í Robert Van Winkle eða Vanilla Ice frá því á 10. áratugnum. AFP

Hinn sykursæti og hörundljósi rappari Vanilla Ice lenti í vondum málum vegna smellsins „Ice ice baby“ sem kom honum á kortið í byrjun tíunda áratugarins. Bassalínan í því lagi er fengin að „láni“ frá Queen og David Bowie samstarfinu „Under Pressure“. Málið var hið versta fyrir rapparann þar sem hann þrætti fyrir líkindin og sagðist hafa bætt takti við línuna. Vanilla þurfti því að deila greiðslum með Bretunum. 

Richard Ashcroft á sviðið á Secret Solstice hátíðinni.
Richard Ashcroft á sviðið á Secret Solstice hátíðinni. mbl.is/Hanna Andrésdóttir

Annað sérstakt mál var lögsókn Rolling Stones vegna lagsins „Bittersweet symphony“ sem er enn þann dag í dag gríðarlega vinsælt. Mick Jagger og félagar höfðu samið lagið „The Last time“ sem Andrew Oldham Orchestra hafði gert strengjaútsetningu við en var ekki notuð í sjálfu laginu. Verve-félagar höfðu meira að segja fengið leyfi fyrir notkuninni með 50% hlutdeild en umboðsmenn Stones sáu að þarna væri þó hægt að fá meira og sóttust eftir öllum tekjum af laginu. 

Þarna höfðu ellismellirnir betur og Richard Ashcroft og The Verve fá fyrir vikið engar tekjur fyrir lagið og hafa enga stjórn á notkun þess en það var til að mynda notað í auglýsingaherferð Nike. Þegar það var svo tilnefnt sem besta lagið á Grammy-verðlaunahátíðinni voru gömlu brýnin Mick Jagger og Keit Richards titlaðir sem höfundar lagsins.  

Það er vissara að atast ekki í þessum drengjum.
Það er vissara að atast ekki í þessum drengjum. AFP

 Greinin er byggð á umfjöllun bandaríska tímaritsins The Rolling Stone.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert