Illa svikin af hóteli í Rússlandi

Stuðningsmenn Íslands í Marseille á EM Í Frakklandi. Þeir verða …
Stuðningsmenn Íslands í Marseille á EM Í Frakklandi. Þeir verða líklega eitthvað færri sem fylgja landsliðinu til Rússlands. AFP

„Við erum búin að tapa vel á þessu,“ segir Dísa Viðarsdóttir sem var illa svikin af hóteli í Rostov við Don í Rússlandi, en hún og maðurinn hennar höfðu bókað gistingu þar vegna Heimsmeistaramótsins í knattspyrnu í sumar. Bókun fyrir tveimur hótelherbergjum var gerð ógild mánuði eftir að þau höfðu gengið frá henni, því hótelið áttaði sig á því að hægt var að fá mun hærra verð fyrir herbergin. Dísu stóð svo til boða að gera nýja bókun og borga margfalt hærra verð.

„Við undirbjuggum okkur mjög vel og pöntuðum allt með góðum fyrirvara. Við pöntuðum um leið og það var búið að draga í riðla og við vissum hvar Ísland var að spila. Við ætluðum að gera þetta eins ódýrt og hægt var. Að fara til Rússlands er ekki eitthvað sem maður gerir á hverjum degi, ekki í svona svaka ferð. Það er „once in a liftime“ að taka svona pakka,“ segir Dísa í samtali við mbl.is. 

„Við bókuðum allt 2. desember, flug og hótelgistingu. Við eigum nefnilega miða á fjóra leiki. Þetta var mjög vel skipulegt hjá okkur því við ætluðum ekki að vera sein fyrir með neitt. Við vissum að verð á flugi og hótelgistingu myndi fara upp úr öllu valdi þegar nær drægi.“ 

Ógiltu bókunina og hækkuðu verðið

Þau bókuðu meðal annars gistingu í gegnum Booking.com á Hotel Kolibri í Rostov við Don, þar sem Ísland leikur á móti Króatíu þann 26. júní. „Við bókuðum þar tvö hótelherbergi, fyrir okkur og vini okkar, fjórar nætur, 23. til 27. júní. Við fengum það á svaka góðu verði. Við höfum notað Booking.com í mörg ár og stóðum í þeirri meiningu að við gætum verið örugg með það verð sem kemur upp þegar bókað er. Þannig hefur það allavega alltaf verið.“

Dísa er mjög ósátt við framgöngu Booking.com í málinu.
Dísa er mjög ósátt við framgöngu Booking.com í málinu. Mynd/Aðsend

Mánuði síðar, snemma í janúar, fékk Dísa hins vegar póst frá hótelinu þar sem kom fram að bókunin þeirra yrði gerð ógild. Þeim stóð þó til boða að bóka sömu herbergi aftur á margfalt hærra verði. Eitthvað sem þau voru að sjálfsögðu ekki til í.

„Þá voru þeir búnir að átta sig á því að þeir gátu selt hótelherbergin á miklu hærra verði. Þeir virtust hafa áttað sig á því frekar seint og vildu hækka verðið upp úr öllu valdi. Þeir mega það auðvitað ekkert,“ segir Dísa sem er vægast sagt ósátt og svekkt vegna málsins.

Var sagt að hafa ekki áhyggjur

Þau settu sig strax í samband við Booking.com til kanna hvort fyrirtækið myndi ekki aðstoða þau með þetta mál. „Við töluðum við fullt af fólki, okkur var hent á milli þjónustufulltrúa. Það virðist ekkert skipulag vera á því hvernig haldið er utan um hvert mál hjá þeim. Við töluðum við fólk í Englandi, Rússlandi og á Spáni. Það var rosalega erfitt að fá að tala við einhvern sem gat svarað einhverju. Þeir töluðu samt alltaf um að þetta væri ekki í lagi. Hótelið mætti ekki hætta við okkar bókun og hækka verðið. Við fengum alltaf þær upplýsingar að rétturinn væri okkar megin. Við myndum ekki tapa á þessu. Við þyrftum ekki að hafa neinar áhyggjur.“

Dísa, maðurinn hennar og vinafólk þeirra fá ekki að sjá …
Dísa, maðurinn hennar og vinafólk þeirra fá ekki að sjá strákana okkar leika á móti Krótatíu í HM í sumar. mbl.is/Eggert

Að sögn Dísu tók um mánuð að fá niðurstöðu í málið og þegar upp var staðið virtist Booking.com hafa staðið með hótelinu og firrti sig allri ábyrgð. „Við létum lögfræðing senda póst fyrir okkur en fengum að lokum þau svör að fyrirtækið gæti ekki gert neitt í þessu fyrir okkur. En ef við vildum fara lengra með málið þá væri það sjálfsagt. Þannig við töpuðum þessu. Booking.com sveik okkur jafn mikið og hótelið. Maður heldur að maður sé tryggður með svona millilið en svo reyndist ekki vera.“

Missa af leiknum og tapa peningum

Dísa, maðurinn hennar og vinafólk þeirra eru því ekki á leið á leik Íslands og Króatíu í Rostov eins og til stóð. „Það er auðvitað ekkert hægt að fá gistingu þar núna nema fyrir morðfjár. Þannig við töpum því sem við borguðum fyrir flugið og miðana á leikinn. Það var ástæða fyrir því að skipulögðum okkur og bókuðum með svona góðum fyrirvara, það var af því vildum ekki lenda í veseni,“ segir Dísa, en hún veit um fleiri sem hafa lent í svipuðu í tengslum við bókanir á önnur hótel í Rostov.

Ekkert hefur breyst varðandi bókanir á öðrum hótelherbergjum sem þau pöntuðu á sama tíma, en Dísa viðurkennir að hún sé stressuð um að vandamál kunni að koma upp. „Maður veit ekkert hvort það verður í lagi eða hvort það verður sama vesenið þegar nær dregur. Þau hótelherbergi voru reyndar bókuð í gegnum Dohop.com. Ég hef notað Booking.com rosalega mikið, þannig það var ekki eins og ég væri að gera þetta í fyrsta skipti. Nú er ég algjörlega búin að missa álitið á þessu fyrirtæki og mun ekki bóka í gegnum þá aftur.“

Dísa segir leiðindin með bókunina og þá staðreynd að þau missa af einum leik aðeins hafa skyggt á gleðina og tilhlökkun vegna ferðarinnar.

„Þetta er voðalega leiðinlegt og búið að skemma mikið fyrir okkur og öðrum. Við höfum hlakkað rosalega til en þetta hefur skyggt á gleðina.“

Hótel í Moskvu sagði kortinu hafa verið synjað

Það virðist þó ekki vera einskorðað við hótel í Rostov við Don að ógilda bókanir á hótelherbergjum og hækka verðið. Sigurður Hjaltested lenti í svipuðu með herbergi sem hann bókaði í Moskvu vegna HM. „Ég bókaði hótel 1. desember og fékk svo meldingu eftir áramót um að kortið mitt virkaði ekki og ég hefði 24 tíma til að laga það. 5 mínútum síðar fékk ég afbókun a hótelinu vegna þess að synjun hefði komið á kortið,“ segir Sigurður í samtali við mbl.is

Hann fullyrðir að ekkert hafi verið að kortinu hans og þar á auki hafi ekki átt greiða fyrir hótelherbergið fyrr en við komu.

Sigurður pantaði einnig í gegnum Booking.com og segir fyrirtækið algjörlega hafa staðið með hótelinu. Það hafi ekkert viljað aðstoða hann. „Hótelið hafði svo samband við mig og bauð mér að endurnýja bókun fyrir hótelherbergið, en þá var búið að margfalda verðið.“

mbl.is

Bloggað um fréttina