„Ég styð ekki þessa ríkisstjórn“

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, var gestur Páls Magnússonar á …
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, var gestur Páls Magnússonar á Þingvöllum. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég styð ekki þessa ríkisstjórn, ég vil fella hana,“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins og fyrrverandi forsætisráðherra, sem var gestur Páls Magnússonar í þættinum Þingvellir á K100. 

Tilefni ummæla hans er að Páll spurði Sigmund um þá ávörðun sína að styðja vantrausttillöguna sem lögð var fram gegn Sigríði Á. Andersen dómsmálaráðherra. 

Sagðist Sigmundur hafa tekið fram að hann væri ekki sammála rökstuðningi tillögunnar en tillagan sjálf hafi einungis snúist um vantraust á ráðherrann og hann styddi hana. „Ég er tilbúinn að styðja vantraust á ríkisstjórnina alla, eða einstaka ráðherra, á morgun.“

„Ég styð ekki þessa ríkisstjórn, ég vantreysti ríkisstjórninni og ráðherrum hennar almennt og vil fella hana,“ sagði Sigmundur. 

Ríkisstjórnin hafi enga pólitíska stefnu

Hann gaf lítið út að það að hann kynni ekki vel við sig í stjórnarandstöðu. Sagði hann það hlutverk sem gæti verið skemmtilegt og benti á að hann hefði einnig verið í þessu hlutverki á árunum 2009-2013.

Þá sagði Sigmundur sitjandi ríkisstjórn ekki hafa neina pólitíska stefnu. „Þetta er reyndar dálítið öðruvísi ríkisstjórn sem maður er að fást við núna. Hin var vinstri stjórn sem var með mjög ákveðið pólitískt agenda. Þetta er hins vegar ríkisstjórn sem er með ekkert pólitískt agenda.“

mbl.is

Bloggað um fréttina