“Ótrúleg mistök og vanhugsað

Brynjar Níelsson alþingismaður kom í þáttinn Ísland vaknar í morgun og ræddi m.a. um rekstur ríkisins á RÚV og þingsályktunartillögu sem gengur út á að Alþingi biðji m.a. Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, afsökunar vegna kærunnar sem lögð var á hendur honum og tekin fyrir í landsdómsmálinu svokallaða árið 2012. Þar var Geir aðeins fundinn sekur í einum ákærulið og ekki gert að sæta refsingu. 

Aðspurður um hvort þetta mál sé ekki búið, enda hafi Mannréttindadómstóll Evrópu komist að þeirri niðurstöðu að ekkert athugavert hafi verið við málsmeðferðina segir Brynjar: „Málsmeðferðin braut ekki í bága við mannréttindasáttmálann og ég get í sjálfu sér tekið undir það, en það breytir því ekki að þessi ákvörðun var galin. Það varð heldur enginn árangur af þessu, öllum stóru atriðunum var hent út.“

En finnst Brynjari líklegt að VG-liðar á Alþingi og samstarfsfólk hans í ríkisstjórn muni styðja þessa tillögu? „Þetta voru alveg ótrúleg mistök og vanhugsað. Þetta var gert í mikilli óreiðu og mikilli reiði, þannig að ég held að menn sjái að sér núna og biðjist afsökunar.“

Brynjar skrifaði færslu á facebook í gær (sjá hér að neðan) um hlutverk ríkisins á ljósvaka- og netmiðlamarkaði en hann vill m.a. endurskoða hlutverk RÚV. Hann var spurður út í þetta í þættinum. „Ég er að komast að því smátt og smátt að þetta er tímasprengja. Það eru engin rök fyrir þessu,“ segir Brynjar en hann fullyrðir að menningarlegu rökin fyrir tilvist RÚV séu úr sér gengin.  „Það er augljóst. Í fyrsta lagi er enginn að horfa á þetta. Þeir eru ekki að bjóða upp á neitt sem enginn annar er að gera. Auðvitað myndu aðrir sjá um þetta ef þetta hyrfi. Þetta er tilfinningatengt. Sumir geta bara ekki hugsað sér að missa Boga Ágústsson eða Landann. Fólk heldur alltaf að allt fari til andskotans, þannig að við verðum að taka þetta í skrefum. Og kannski endum við á því að bara Rás 1 verði áfram. En þetta tekur bara lengri tíma en maður heldur, það næst bara ekki samstaða um þetta,“ segir Brynjar.

Brynjar talar um þá fjármuni sem settir eru í RÚV á hverju ári: „Hvað gætum við gert fyrir rúma 4 milljarða? Það er ofboðslega mikið. Og þá bara hendum við þeim í eitthvað útvarp, sem aðrir aðilar gætu hæglega séð um að reka,“ segir Brynjar.

Hægt er að horfa og hlusta á viðtalið í heild hér að neðan.

Yfirlýsing Brynjars á facebook í gær:

Í evrópu eru menn að átta sig á hversu mikil tímaskekkja ríkisreknir ljósvaka- og netmiðlar eru. Og ekki bara timaskekkja heldur fullkomlega óeðlilegt út frá jafnræðis-og samkeppnissjónarmiðum. Eins og oft áður eru danir fyrstir að rakna úr rotinu. Á Íslandi eru menningar- og öryggisrökin fyrir tilvist RUV úr sér gengin sem og rökin fyrir aðgengi allra að ljósvakamiðlum. Kannski að hollvinir RUV reyni að beita lýðheilsusjónarmiðum eins og við hollvinir ÁTVR gerum fyrir einkasölu ríkisins á áfengi.

Eftir stendur að "sumir" skattgreiðendur þurfa að punga út á fimmta milljarð árlega í óþarfa. Við, sem höfum áhuga á að dreifa peningum annarra eftir eigin geðþótta, getum hugsað okkur betri nýtingu á þessu fé. Auk þess tekur ríkismiðillinn lungan af auglýsingatekjum, sem gerir frjálsa fjölmiðlun nær ómögulega. Röknum úr rotinu þótt ekki verði tekin nema lítil skref í byrjun.“

Ísland vaknar er alla virka daga klukkan 06.45-09.00 á útvarpstöðinni K100 og í Sjónvarpi Símans á rás 9.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert