30% fjölgun nýrra mála hjá Stígamótum

Málum fjölgaði til muna hjá Stígamótum á síðasta ári.
Málum fjölgaði til muna hjá Stígamótum á síðasta ári.

Ný mál sem komu á borð Stígamóta á síðasta ári voru 484 talsins, sem er 30 prósenta aukning frá árinu á undan.

Þetta kemur fram í ársskýrslu Stígamóta sem var kynnt á blaðamannafundi í morgun.

Heildarfjöldi einstaklinga sem nýtti sér þjónustu samtakanna árið 2017 var 969. Fram til þessa var mestur fjöldi sem nýtti sér þjónustuna á einu ári 677 og er aukningin því 48 prósent. Um helmingur þess hóps hafði verið í viðtölum á fyrri árum. Bendir þetta til verri líðunar þeirra og lengri tíma í viðtölum.

Heildarfjöldi viðtala á síðasta ári fór úr 2.200 í 3.091, sem er 37 prósenta aukning, og hafa viðtölin aldrei verið fleiri.

229 mál vegna nauðgana eða tilrauna til þeirra

Skipting brotaþola var á þann veg að 395 voru konur, eða rúm 87%, og 54 voru karlar, eða tæp 12%. Flest brotin voru framin inni á heimilum, eða yfir 60%. Alls voru 8,8% brota framin utandyra.

Alls leituðu 229 manns til Stígamóta á síðasta ári vegna nauðgunar eða nauðgunartilraunar, eða um 74%, 27 vegna hópnauðgunar, eða tæp 9%, og 37 vegna lyfjanauðgunar, eða 12%.

Þrettán leituðu sér aðstoðar vegna vændis og 21 vegna kynferðisbrota á útihátíðum.

Alls var 61 tilfelli á síðasta ári vegna stafræns ofbeldis eða hótana þar um.

Hlutfall fatlaðra sem leituðu aðstoðar hjá samtökunum fór úr 36,4% í 39,4%, sem er 25% aukning.

Aðeins tíu prósent málanna sem komu á borð Stígamóta voru kærð. 

Langflestir kynferðisafbrotamenn 18-29 ára

Samkvæmt tölfræði Stígamóta byrjuðu kynferðisafbrotamenn á aldrinum 18 til 29 ára, eða 250 talsins sem jafngildir tæpum 38 prósentum.

Næstflestir byrjuðu á aldrinum 14 til 17 ára, eða 92, sem jafngildir tæpum 14 prósentum.

Þar á eftir komu þeir sem byrjuðu á aldrinum 30 til 39 ára, eða 87 talsins, sem er um 13 prósent.  

#metoo-umræðan hafði áhrif 

Fram kemur í ársskýrslunni að aðsóknin til samtakanna endurspegli gjarnan umræður í fjölmiðlum.

Aðsóknin var mikil allt síðasta ár. Fyrri hluta ársins var hún ef til vill mikils vegna mikillar fjölmiðlakynningar í tengslum við fjáröflunarátak í lok ársins 2016. Seinni hluta ársins fór #metoo-umræðan að hafa áhrif.

Beiðnir um fræðslu voru fleiri en hægt var að bregðast við og kemur fram í skýrslunni að þörf sé á fjölgun starfsfólks, bæði í ráðgjöf og fræðslu til að viðhalda þjónustunni.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert