„Ég er alltaf að skamma Pírata“

Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, segir skýrslu GRECO um spillingu vera …
Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, segir skýrslu GRECO um spillingu vera pólitíska og að varast verði að taka henni sem sannleik. mbl.is/Árni Sæberg

Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir nýútkomna skýrslu GRECO, hóps ríkja gegn spillningu á vettvangi Evrópuráðsins, ekki vera alvöru úttekt eða skoðun.

Brynjar var gestur Bjartrar Ólafsdóttur í þjóðmálaþættinum Þingvellir á K100 í morgun þar sem skýrsla GRECO kom meðal annars til umræðu. Í skýrslunni er kallað eftir því að ís­lensk stjórn­völd styrki stjórn­kerfi Íslands til þess að draga úr hætt­unni á spill­ingu og óviðeig­andi fram­göngu í starf­semi stjórn­valda og lög­gæslu­stofn­ana.

Frétt mbl.is: Setja þurfi reglur og framfylgja þeim

Segir að varast beri að taka skýrslunni sem sannleik

„Ég veit allt um það,“ sagði Brynjar þegar Björt benti á að samkvæmt úttektinni er ýmsu ábótavant í íslensku stjórnkerfi.

„Ég veit alveg hvernig þetta er. Þetta eru margar fínar ábendingar en menn verða að varast að taka þetta sem sannleik, þetta eru bara einhver samtöl við fólk,“ sagði Brynjar. Þá sagði hann að skýrslan væri pólitísk. „En ég er ekki að segja að þetta sé allt saman slæmt og ekki góðar ábendingar.“  

Skýrslan kom einnig til umræðu á þingi í vikunni þar sem Helgi Hrafn Gunnlaugsson, þingmaður Pírata, og Brynjar áttu í orðaskaki. „Ég er alltaf að skamma Pírata. Þess vegna er ég farinn að sakna Birgittu, hún hafði allavega pólitíska sýn, en mér finnst málflutningur Pírata hafa verið sérstaklega slæmur með þetta,“ sagði Brynjar og átti við umræðu um skýrsluna á þingi.

Birgitta Jónsdóttir, fyrrverandi þingmaður Pírati og nú einnig fyrrverandi Pírati, var einnig gestur Bjartar í þættinum.

„Það sem er sérstakt við okkur er að það virðist mjög erfitt fyrir ráðherra að axla ábyrgð ef þeir gera mistök,“ sagði Birgitta. Hún sagði einnig hafa tekið eftir því á ferðalögum sínum erlendis að ábyrgð, eða ábyrgðarleysi ráðherra á Íslandi, veki athygli. „Það er tekið eftir þessu erlendis, ekki bara hjá GRECO. Það eru margir sem furða sig á þessu því við erum alltaf „cluster-uð“ inn í skandinavíska módelið en þetta er á skjön við það. Þess vegna skýtur það skökku við að axla ekki ábyrgð sem getur skert trúverðugleika og traust til stofnana,“ sagði Birgitta.

Hér er hægt að hlusta á viðtalið við Brynjar og Birgittu í heild sinni:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert