„Aðgerðalítið veður“ um komandi helgi

Það gæti orðið smá blautt á suðvesturhorni landsins í fyrramálið …
Það gæti orðið smá blautt á suðvesturhorni landsins í fyrramálið en síðan ætti að stytta upp. mbl.is/Eggert

„Ég get sagt að sumarið byrji bara ágætlega,“ segir Haraldur Eiríksson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is um veðrið á sumardaginn fyrsta, sem er á morgun.

Að sögn Haraldar verður smá væta á Suður- og Vesturlandi á morgun, alla vega árdegis.

„Svo ætti nú að stytta upp,“ segir Haraldur og bætir því svo við að á Norðurlandi verði þurrt og sæmilega milt, svipað og það var í dag.

Vindurinn á morgun verður að sögn Haraldar suðaustankaldi, svipaður og hann hefur verið í dag, en dregur úr vindi með deginum.

Það verða svo rólegheit í veðrinu um helgina.

„Það verður aðgerðalítið veður, en sígur reyndar aðeins niður hitinn,“ segir Haraldur og bætir því við að landsmenn eigi alla vega von á ágætis sumarbyrjun.

Hann sjálfur segist eiga margar minningar úr bernsku af skrúðgöngum á fyrsta sumardag í ískaldri norðanátt, en það verði ekki svo í ár.

Veðurhorfur fyrir allt landið næsta sólarhringinn

Suðaustan 8-13 m/s og rigning með köflum, einkum SA-lands, en þurrt á N- og NA-landi. Hægari og úrkomulítið síðdegis á morgun. Hiti 6 til 13 stig að deginum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert