Samskiptasáttmáli kynntur 16. maí

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans.
Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans. mbl.is/Golli

Samskiptasáttmáli Landspítala verður kynntur 16. maí á ársfundi spítalans. Innleiðing sáttmálans hefst í haust.

Í pistli Páls Matthíassonar, forstjóra Landspítalans, kemur fram að vinna standi yfir við gerð sáttmálans. Framkvæmdastjórar hafi stýrt fundum með hópi starfsmanna úr öllum stéttum.

Sjálfur stýrði Páll einum slíkum fundi í vikunni þar sem um 30 starfsmenn komu saman.

„Það var góður andi á fundinum og mitt mat var að það væri góður skilningur á verkefninu og hvers vegna við höfum ráðist í þessa vinnu,“ skrifar hann.

Fram kemur í pistlinum að úrtak 1.500 starfsmanna hafi verið boðað á 50 fundi og nú liggi fyrir mikið efni sem verður nýtt við gerð samskiptasáttmálans. Smiðshöggið verður rekið á hann á fundi allra stjórnenda spítalans 8. maí.

„Ég bind miklar vonir við þetta verkefni sem þegar hefur vakið athygli út fyrir okkar veggi og ég þakka öllum kærlega fyrir sem tekið hafa þátt í fundunum,“ skrifar Páll.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert