Færri sækja sér símenntun

mbl.is/Hari

Þátttaka í símenntun hefur farið minnkandi undanfarin tvö ár eftir aukningu á milli áranna 2014 og 2015. Tæplega 23% landsmanna á aldrinum 25-64 ára sóttu sér fræðslu, annaðhvort í skóla eða aðra fræðslu með leiðbeinanda árið 2017, alls 39.600 manns.

Þótt fækkun milli ára sé eingöngu 1,4 prósentustig, hefur hlutfall þeirra sem sóttu símenntun ekki verið lægra síðan tölur um símenntun voru fyrst birtar árið 2003, þegar það var 22,2%, segir í frétt á vef Hagstofu Íslands.

Í aldurshópnum 16-74 ára er sömu sögu að segja; fækkun þeirra sem stunduðu símenntun er tæpt prósentustig og hefur þátttaka ekki verið minni síðan árið 2003. Þátttaka var minni í öllum tegundum símenntunar, svo sem námskeiðum, annarri fræðslu með leiðbeinanda utan skóla (s.s. ráðstefnum) og fræðslu innan skóla. Mest var fækkunin meðal háskólamenntaðra karla, um 4 prósentustig í hvorum aldurshópi.

Þátttaka í símenntun var mest meðal háskólamenntaðra en rúm 30% háskólamenntaðra landsmanna á aldrinum 25-64 ára sóttu sér fræðslu árið 2017. Hlutfallið var lægra meðal þeirra sem lokið höfðu starfs- og framhaldsmenntun, um 21%, og lægst meðal þeirra sem eingöngu höfðu lokið grunnmenntun, rúm 12%.

Þátttaka í símenntun var mest í aldurshópnum 16-24 ára, 61,2%, sem skýrist af því að stór hluti aldurshópsins sækir framhaldsskóla- og háskólanám. Minnst þátttaka var hins vegar í aldurshópnum 55-74 ára, 11,4%. Konur voru um 54% allra sem sóttu sér fræðslu á aldrinum 16-74 ára, 35.900 talsins, en karlar voru 30.400.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert