Hótel allt í kring en 5 herbergjum hafnað

Hjónin Birna Björgvinsdóttir og Jón Hermannsson hafa á undanförnum 11 árum eytt orku, tíma og miklum fjármunum í að gera upp hús frá árinu 1887 sem stendur við Veltusund 3B. Hugmyndin er að á efri hæðum hússins verði 5 litlar íbúðir til útleigu fyrir ferðamenn. Reykjavíkurborg hefur hinsvegar margsinnis neitað hjónunum um leyfi fyrir starfsemina.

Fékk vilyrði frá borginni

Jón starfaði þar um áratugaskeið frá árinu 1978 í úrsmíðaverslun föður síns Hermanns Heiðars Jónssonar. Árið 2005 höfðu hjónin tök á að festa kaup á öllu húsinu sem hann gerði. Í upphafi var Jón í sambandi við húsafriðunarnefnd og Reykjavíkurborg um hvernig standa ætti að endurbótum á húsinu sem var á þessum tíma í mikilli niðurníslu. „Ég fór hingað með Jóhannesi Kjarval heitnum sem var formaður Umhverfis- og skipulagsráðs og honum leist vel á mínar fyrirætlanir,“ segir Jón. Við bankahrunið varð þó hlé á framkvæmdum en þegar Jón sótti svo formlega um leyfið árið 2014 var honum synjað á þeim forsendum að árið 2015 yrði settur 23% kvóti á gistirými í Kvosinni árið 2015.

Verið er að bæta við um 16 þús. fermetrum af …
Verið er að bæta við um 16 þús. fermetrum af gistirýmum á svæðinu. mbl.is/Hallur Már

Þetta segir Jón að hafi komið sér alveg að óvörum þar sem borginni ætti að hafa verið fullkunnugt um fyrirætlanir sínar og sýnt hafi verið fram á að í deiliskipulagi hafi verið gert ráð fyrir gistiþjónustu í húsinu. „Síðan þá hef ég sótt um að nýju reglulega en ég fæ alltaf mismunandi ástæður. Ég hef alltaf náð að hrekja þær og sótt að nýju um en er þá synjað á nýjum forsendum,“ segir Jón. Honum hafi þó verið gert að gera húsið upp til þess að það myndi standast reglur um gístirými, með góðu sprinkler-kerfi og þreföldum gifsveggjum sem hafi kostað háar fjárupphæðir. Þetta geri það m.a. að verkum að húsnæðið sé orðið alltof dýrt til útleigu á almennum leigumarkaði.   

Synjun eina ferðina enn

Eftir að hafa fengið synjun frá borginni í janúar vegna kvótans á gistirými í Kvosinni fékk Jón Daða Björnsson, landupplýsingafræðing, til að meta hvort svigrúm væri til að bæta við gistiaðstöðu á svæðinu. Niðurstaða þess mats var, að með fyrirséðri aukningu á gistiþjónustu á svæðinu á Iðnaðarbankareit, Alþingisreit og Landssímareit þar sem við bætast tæplega 16 þúsund fermetrar af gistirými, yrði hlutfall af gistiþjónustu á svæðinu 22,45%.

Jón og Birna hafa reynt að klára einstaka íbúðir til …
Jón og Birna hafa reynt að klára einstaka íbúðir til þess að geta tekið myndir af þeim í þeirri von um að leyfið fáist frá borginni. mbl.is/Halllur Már

Herbergin fimm sem Jón og Birna ætluðu að setja í útleigu eru samtals um 230 fermetrar og myndu bæta 0,12 prósentum við það hlutfall. Þessum upplýsingum komu hjónin áleiðis innan borgarinnar en þau hafa verið í miklu sambandi við Hjálmar Sveinsson, formann Umhverfis- og skipulagsráðs, vegna málsins. „Þá fæ ég synjun eina ferðina enn með engri ástæðu. Bara út af því að það er synjað. Ég hef á þriðja ár reynt að fá fund með Degi [B. Eggertsyni, borgarstjóra] en hann hefur aldrei viljað svara mér,“ segir Jón.

Málið var tekið fyrir á fundi í Umhverfis- og skipulagsnefnd á þriðjudag. Þar kemur fram að fulltrúar Samfylkingar, Vinstri Grænna og Bjartrar Framtíðar hafi greitt atkvæði gegn því að veita leyfið á meðan Halldór Halldórsson fulltrúi Sjálfstæðisflokks hafi stutt leyfisveitinguna og hafi látið bóka að:  

„Að samþykkja eigi beiðni eiganda Veltusunds 3 b um að fá leyfi fyrir gististarfsemi í húsinu enda hefur hann ítrekað óskað eftir því allt frá árinu 2007. Miðað við 23% heimild fyrir gistingu í Kvosinni myndi gististarfsemi í þessu húsi rúmast innan þess gistikvóta fyrir það svæði.“

Hjálmar Sveinsson og Heiða Björg Hilmisdóttir frá Samfylkingu, Magnea Guðmundsdóttir fyrir Bjarta Framtíð og Torfi Hjartarson fyrir Vinstri Græna gagnbókuðu:

„Fulltrúar Bjartrar Framtíðar, Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar Græns framboðs benda á að samkvæmt gildandi aðalskipulagi og deiliskipulagi er ekki heimilt að vera með gististarfsemi í húsinu við Veltusund 3B.“

Hótel allt í kring

„Svo verður maður svolítið sár þegar maður lítur út um gluggann þar sem verið er að rífa gömul hús við hliðina á okkur og reisa þar 130 herbergi þar sem gömlu húsin í kring eiga að vera stoðrými og svo fáum við ekki að vera með okkar fimm litlu herbergi í þessu gistihúsi, þetta er nú varla hótel einu sinni,“ bætir Birna við en þau hjónin eru komin í erfiða stöðu gagnvart lánadrottnum sínum vegna þessa hindrana og hafa því sjálf verið að teppaleggja og gera það sem hægt er til þess að fullklára rýmin í von um að leyfið fáist frá borginni.

Húsnæðið er gamalt og reynt hefur verið að halda í …
Húsnæðið er gamalt og reynt hefur verið að halda í upprunalega hluti eins þennan skorstein. mbl.is/Hallur Már

Sævar Þór Jónsson er lögmaður hjónanna og hann segir vinnubrögð borgarinnar vera mjög óvenjuleg. „Ég tel þetta mál vera góðan vitnisburð um mál þar sem gróflega er brotið á stjórnsýslurétti almennings í borginni. Svo virðist sem umhverfis- og skipulagsráð telji sig geta hafnað réttmætum kröfum umbjóðanda míns án þess að rökstyðja það nokkuð.  Það liggja fyrir gögn í málinu sem sýna að umbjóðandi minn hafði réttmætar væntingar til þess að hann fengi umrætt leyfi enda hafa meðal annars fyrrv. embættismenn borgarinnar staðfest það með yfirlýsingum,“ segir Sævar.

Ekki náðist í Hjálmar Sveinsson við vinnslu fréttarinnar.

Örfáum metrum frá er svipað hús sem hefur fengist leyfi …
Örfáum metrum frá er svipað hús sem hefur fengist leyfi fyrir að nýta sem stoðrými í væntanlegu hóteli. mbl.is/Hallur Már
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert