Íslensk börn ljá stríðshrjáðum börnum rödd

UNICEF á Íslandi hóf neyðarsöfnun fyrir börn í Jemen í …
UNICEF á Íslandi hóf neyðarsöfnun fyrir börn í Jemen í dag. mbl.is/Árni Sæberg

„Rúðurnar í húsinu okkar titra. Við erum alltaf svo hrædd við sprengjur á morgnana. Ég get ekki einu sinni farið út að kaupa nammi,“ segir Ammar, sex ára, í myndband sem er hluti af neyðarátaki UNICEF fyrir börn í Jemen.

Átakið hófst með í kvöld með viðburði í Hafnarhúsinu þar sem gestir fengu að heyra áhrif stríðsins á börn í Jemen. Fjölmennt var á viðburðinum og voru gestir djúpt snortnir að sögn Steinunnar Jakobssonar, upplýsingafulltrúa UNICEF á Íslandi. 

Yfirskrift neyðarátaks UNICEF er „Má ég segja þér soldið?“ sem vísar í algengt talmál barna. Börn eru helstu fórnarlömb átakanna í Jemen og fengu gestir í Hafnarhúsinu að heyra sögur þeirra í áhrifamiklu myndbandi þar sem íslensk börn ljá stríðshrjáðum börnum raddir sínar.  

„Við viljum vekja athygli á hörmungunum í Jemen með því að leyfa röddum barnanna að heyrast. Í stað þess að telja upp hrikalegar tölur og staðreyndir frá Jemen þá lýsa börnin því sjálf hvað þau hafa gengið í gegnum. Þetta eru raunverulegar sögur barna í Jemen sem hafa upplifað stríð sem heimurinn horfir framhjá,“ segir Steinunn.

Sögurnar eru margar og átakanlegar.  „Það sem þessi börn eiga sameiginlegt er að þau hafa fengið nóg af stríði. Þau vilja fá að leika úti við vini sína í öryggi, fá að borða þar til þau eru södd, fara í skólann á morgnana og ekki heyra í sprengjum og byssum þegar þau reyna að sofna á kvöldin,“ bætir Steinunn við.

Hægt er að styðja söfnunina með því að senda SMS-ið JEMEN í númerið 1900 og gefa 1900 krónur eða leggja inn frjálst framlag hér. Fyrir 1900 krónur er til dæmis hægt að veita barni rúmlega tveggja vikna meðferð við vannæringu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert