Um þriðjungur telur of fáa fá hæli

Frá komu flóttafólks frá Sýrlandi til Íslands.
Frá komu flóttafólks frá Sýrlandi til Íslands. mbl.is/Eggert

Tæplega helmingur landsmanna, eða 44,9%, telur að fjöldi þess flóttafólks sem veitt er hæli á Íslandi sé nægilegur. 29,4% landsmanna telja of lítinn fjölda flóttamanna fá hælisveitingu hér á landi og 25,7% eru þeirrar skoðunar að of mikill fjöldi flóttafólks fái hæli á Íslandi.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri skoðanakönnun MMR. Breytingar frá síðustu könnun, sem framkvæmd var fyrir rúmu ári síðan, eru að þeim sem telja of marga flóttamenn fá hæli fjölgar um 2% og þeim sem telja of fáa flóttamenn fá hæli fækkar um 2%.

Yngra fólk er líklegra en eldra fólk til að telja að of fáir flóttamenn fengju hæli á Íslandi. Fólk með hærra menntunarstig var einnig líklegra til að telja of fáa flóttamenn fá hæli.

70% stuðningsmanna Flokks fólksins telur of marga fá hæli

Ef afstaða svarenda er skoðuð eftir stuðningi við stjórnmálaflokka má sjá að um helmingur stuðningsmanna Samfylkingarinnar (55%), Vinstri grænna (45%), Pírata (52%) og Viðreisnar (50%) telja að of fáir flóttamenn fái hér hæli.  

Rúmlega helmingur stuðningsmanna Sjálfstæðisflokks (55%) og Framsóknarflokks (56%) telja að hæfilegur fjöldi flóttafólks fái hæli hér á landi. 70% stuðningsmanna Flokks fólksins og 58% stuðningsmanna Miðflokksins telja að of mikill fjöldi flóttafólks fái hér hæli.

Könnunin var framkvæmd dagana 2. til 12. mars 2018 og var heildarfjöldi svarenda 995 einstaklingar, 18 ára og eldri.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert