Flottur árangur Íslendinga á HM

Sigurjón Ernir Sturluson var fyrstur Íslendinga í mark.
Sigurjón Ernir Sturluson var fyrstur Íslendinga í mark.

Sigurjón Ernir Sturluson kom fyrstur í mark af Íslendingunum sem kepptu á heimsmeistaramótinu í utanvegahlaupum á Spáni í gær. Hlaupið var 88,1 km langt og hækkunin fimm þúsund metrar. Sigurjón hljóp á tímanum 11:23:34 og hafnaði í 119 sæti af 350 keppendum.

Hann var nokkuð hress þegar mbl.is heyrði í honum í morgun. „Manni líður nú alltaf eins og hafa orðið fyrir trukk daginn eftir hlaup eins og þetta,“ segir Sigurjón og viðurkennir að hann sé aumur hér og þar í líkamanum. „En ég er ótrúlega sáttur við að vera ekkert alvarlega aumur í hnjám eða mjöðmum,“ segir hann.

Heimsmeistaramótið í utanvegahlaupum.
Heimsmeistaramótið í utanvegahlaupum. Úr einkasafni

Sjö af átta keppendum frá Íslandi luku keppni en tveir íslensku keppendanna, Guðni Páll Pálsson og Elísabet Margeirsdóttir, lentu að sögn Sigurjóns í basli á leiðinni. Guðni, sem að sögn Sigurjóns hefði örugglega verið fyrstur í mark Íslendinganna ef hann hefði ekki glímt við slæma krampa strax snemma í hlaupinu, kom í mark á rúmum 14 klukkustundum. Elísabet, sem fékk astma-einkenni í seinni hluta hlaupsins sem ekki gengu til baka, ákvað eftir 62 km að hætta keppni.

Að sögn Sigurjóns voru 20% afföll keppenda í hlaupinu enda mjög erfitt hlaup með mikilli hækkun á seinni hluta leiðarinnar. Margir hafi dottið og meitt sig illa og hann hljóp meðal annars fram á einn sem hafði dottið mjög illa og var að haltra inn á drykkjarstöð. Undirlagið var þurrt og auðvelt að renna til þegar hlaupið er hratt.

Sigurjón Ernir Sturluson í hlaupinu í gær.
Sigurjón Ernir Sturluson í hlaupinu í gær.

Sigurjón segir að veðrið hafi verið mjög hagstætt og skýjað fyrstu 21 km en hlaupið var ræst stað eldsnemma. Á þeim tíma sem hann var að hlaupa var mikil sól í tvo til þrjá tíma annars skýjað að mestu. „Þannig að við vorum mjög heppin og laus við mikinn hita,“ segir Sigurjón.

Hann segist hafa drukkið 10-12 lítra af vökva í hlaupinu og rétt slapp á milli drykkjarstöðva án þess að klára vökvann. „Ef það hefði verið fimm til tíu gráum heitara þá hefði ég lent í miklu veseni og væntanlega flestir aðrir keppendur,“ segir Sigurjón. Hlaupið fór fram í Castellóndela Plana og hófst klukkan sex að morgni og lauk því í gærkvöldi í Penygalosa þjóðgarðinum.

Íslensku keppendurnir á heimsmeistaramótinu í utanvegahlaupum.
Íslensku keppendurnir á heimsmeistaramótinu í utanvegahlaupum.

Sigurjón segir að hlaup eins og þetta í gær, þar sem hlaupið er upp og niður, henti honum betur en þegar hlaupið er á sama hraða allan tímann. Utanvegarhlaup með fjölbreyttu undirlagi og góðri hækkun henti sér vel og hann er strax farinn að huga að næstu stóru áskorun.

Sigurjón, sem er einn helsti langhlaupari landsins, hlaup Laugaveginn í fyrra og hafnaði í sjöunda sæti á tímanum 4:57:46.

Ragnheiður Sveinbjörnsdóttir var fyrst íslensku kvennanna í mark á 13:29:55 og er það mun betri tími en hún hafði gert ráð fyrir. Þetta er hennar fyrsta hlaup í svo stórri keppni og var hún 1,5 klukkustund á undan áætlun. Hildur Aðalsteinsdóttir átti rosalegan endasprett í hlaupinu og hún kom í mark aðeins 15 sekúndum áður en 15 klukkustunda glugginn rann út.

Hér er hægt að lesa meira um Sigurjón og hlaupið - Snapchat: sigurjon1352

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert