Játaði en var sýknaður af 5 árásum

Héraðsdómur Austurlands sagði brotin varða við hegningarlög, en að þau …
Héraðsdómur Austurlands sagði brotin varða við hegningarlög, en að þau væru firnd. mbl.is/Gúna

Héraðsdómur Austurlands sýknaði karlmann af ákæru um að hafa ráðist fimm sinnum á sambýliskonu sína. Maðurinn játaði sök þegar málið var þingfest, en héraðsdómur úrskurðaði í síðustu viku að brotin, sem framin voru á árunum 2014-2015, væru fyrnd.

Maðurinn var um tíma grunaður um kynferðisbrot gegn konunni en það mál var fellt niður í september á síðasta ári.

Í dóminum kemur fram að maðurinn hafi m.a. hrint konunni þannig að hún skall með höfuð á malbik akbrautar. Í annað skipti hafi hann slegið hana í andlit og hrint henni þannig að hún féll í gólfið, síðan hafi hann sparkað í líkama hennar og að lokum tekið hana hálstaki. Einnig hafi hann veist að henni þar sem hún sat í aftursæti bifreiðar, gripið í hana og rifið hana út úr bifreiðinni og dregið eftir bifreiðastæðinu þannig að hné hennar drógust eftir malbikinu

Líkt og áður sagði þá viðurkenndi maðurinn sakargiftirnar og var játning hans í samræmi við rannsóknargögn lögreglu og læknisvottorð.

Segir í dóminum að brot mannsins varði við hegningarlög en að málið teljist fyrnt og að fyrningarfrestur hafi hafist þegar lögregla hóf fyrst rannsókn sína fyrir þremur árum.

Málið gegn manninum var hins vegar ekki höfðað fyrr en 28. febrúar á þessu ári. Segir héraðsdómur ekkert benda til þess að maðurinn hafi reynt að koma sér undan rannsókn og því verði honum verði því ekki kennt um meðferð málsins fyrir útgáfu ákærunnar.

Ekki eru tilgreindar neinar skýringar í dóminum á því af hverju útgáfa ákæru dróst, en þó kemur fram að maðurinn hafi um tíma verið grunaður um kynferðisbrot sem tengdust tveimur árásanna. Ákvörðun um að fella niður kynferðisbrotamálið var þó tekin í september í fyrra.

Þá er einnig tilgreint í dóminum að það hafi verið lögreglustjórinn á Austurlandi sem gaf út ákæru í málinu, sem hafði verið í rannsókn hjá lögreglunnni á Suðurlandi. Var þetta gert vegna þess að varnarþing mannsins var á Austurlandi og þrjár af árásunum áttu sér stað þar.

Samkvæmt niðurstöðu dómsins fyrndist málið hins vegar vorið 2017 er það var enn á ábyrgð lögreglustjórans á Suðurlandi, en embætti ríkislögreglustjóra sendi það ekki til lögreglustjóra á Austurlandi fyrr en haustið 2017.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert