Móttaka slasaðra gekk vel þrátt fyrir álag

Jón Magnús Kristjánsson, yfirlæknir bráðalækninga á Landspítala.
Jón Magnús Kristjánsson, yfirlæknir bráðalækninga á Landspítala. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Móttaka þriggja einstaklinga sem slösuðust mikið í bílslysi við afleggjara Landeyjahafnarvegar gekk vel, þrátt fyrir mikið álag á bráðadeild Landspítalans í dag. Þetta segir Jón Magnús Kristjánsson, yfirlæknir á bráðamóttökunni.

Voru sjúklingarnir fluttir með þyrlu til Reykjavíkur síðdegis í dag. Einn lést í slysinu.

„Álagið minnkaði aðeins rétt áður en þessir sjúklingar komu. Fjöldi innlagðra sjúklinga fór úr  þrjátíu niður í tuttugu. Það gerði að verkum að við náðum að rýma bráðastæðin okkar áður en þeir komu og móttaka þeirra gekk eins og hún á að gera,“ segir Jón Magnús, en nefnir að bráðadeildin eigi erfitt um vik að taka á móti mikið slösuðum sjúklingum þegar margir liggi inni. Alls er gert ráð fyrir 34 sjúklingum þar, og plássið sé því af skornum skammti.

Jón Magnús segir að mikið viðbragð verði á spítalanum þegar alvarleg slys verði og það viðbragð sé enn í gangi.

„Þetta verður til þess að legudeildirnar taka við enn fleiri sjúklingum en þær eiga almennt að gera. Þeir sjúklingar liggja enn á deildunum í þeim tilgangi að létta á bráðadeildunum og gera þeim kleift að taka á móti nýjum bráðatilfellum,“ segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert