„Óásættanlegar“ aðstæður að Varmá

Frá íþróttahúsinu að Varmá.
Frá íþróttahúsinu að Varmá. Ljósmynd/Aðsend

Leikmenn í meistaraflokkum Aftureldingar í blaki og handbolta skoruðu á frambjóðendur í sveitarstjórnarkosningum á íbúafundi í Hlégarði í Mosfellsbæ í gærkvöldi að endurnýja golfefnin á íþróttasölum að Varmá.

Þeir segja óásættanlegt að bjóða afreksfólki upp á aðstæðurnar í húsinu.

„Við skorum á frambjóðendur hér í kvöld [gærkvöldi] til að bregðast strax við. Það fylgir því mikil ábyrgð og er í raun óásættanlegt að bjóða afreksfólki í íþróttum og yngri iðkendum upp á þessar aðstæður, vitandi full vel að gólf sem þessi ýta undir að hluti iðkenda mun þróa með sér stoðkerfisvandamál og álagsmeiðsli. Bak-, mjaðma-, hné og ökklameiðsli sem eru óafturkræf. Það eru orðin of mörg dæmi um frábæra íþróttamenn sem hafa þurft að leggja skóna alltof snemma á hilluna vegna meiðsla sem rekja má til vandamála sem hér er lýst,“ segir í áskorun leikmanna.

„Við leikmenn Aftureldingar sættum okkur ekki við að tekin sé áhætta með líkamlega heilsu okkar. Við óskum eftir að því að gripið verði til aðgerða - ekki seinna en strax.“

Frá íbúafundinum í gær.
Frá íbúafundinum í gær. Ljósmynd/Aðsend

Eina félagið í efstu deild á dúk

Í tilkynningu frá Aftureldingu kemur fram að nýja íþróttahúsið að Varmá hafi verið tekið í notkun árið 1998, eða fyrir 20 árum.

„Á sama tíma hafa allflest íþróttafélög í kringum okkur sem leika í efstu deildum í handknattleik fært sig yfir á parket. Afturelding er eina félagið í efstu deild karla sem leikur á dúk. Öll önnur félög hafa fært sig yfir á parket. Ástæðan er mjög einföld. Leikmenn vilja leika á parketi því það dregur úr slysahættu. Á síðasta tímabili fóru þrjú félög, ÍBV, Selfoss og ÍR öll yfir á parket og er því Afturelding eina félagið sem enn leikur á dúk í efstu deild. Leikmenn hafna að ganga til liðs við Aftureldingu vegna þess að þeim hugnast ekki að æfa og leika hér að Varmá. Það dregur sannarlega úr samkeppnisfærni Aftureldingar gagnvart bestu félögum landsins,“ segir í tilkynningunni.

„Blakdeild Aftureldingar æfir og leikur sína heimaleiki í gamla íþróttasalnum að Varmá sem gengur í daglegu tali undir nafninu Salur 3. Í sal þrjú er leikið á dúk sem var lagður beint ofan á steypu á sínum tíma. Eitthvað undirlag var sett á milli steypunnar og dúksins í upphafi  sem nú er algjörlega horfið og þar með öll dempun sem einhvern tímann hefur verið til staðar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert