13 fá styrk frá Vísindasjóði Krabbameinsfélagsins

Styrkhafar ásamt formanni stjórnar Vísindaráðs, Sigríði Gunnarsdóttur.
Styrkhafar ásamt formanni stjórnar Vísindaráðs, Sigríði Gunnarsdóttur. Ljósmynd/Aðsend

13 manns fengu í dag styrk úr Vísindasjóði Krabbameinsfélags Íslands, en heildarupphæð styrkja var 55,5 milljónir króna. Hæsta styrkinn 7,5 milljónir, hlaut Margrét Helga Ögmundsdóttir sameindalíffræðingur fyrir verkefni sem gengur út á að skilgreina hlutverk frumusjálfsáts í myndun æxla.

Auglýst var eftir umsóknum um styrki í byrjun febrúar og bárust alls 22 umsóknir og eftir umfjöllun Vísindaráðs Krabbameinsfélagsins ákvað stjórn Vísindasjóðsins að veita að þessu sinni 13 umsóknum styrki.

Guðrún Valdimarsdóttir sameindalíffræðingur og lektor hlaut þá 6,5 milljónir í styrk fyrir verkefnið Samspil TGF-beta-boðleiðarinnar og Thrombospondin-1, sem rannsakar áhrif á samskipti æðaþels- og brjóstakrabbameinsfruma.

Þá fékk Erna Magnúsdóttir sameindalíffræðingur og dósent 6 milljónir í  styrk fyrir verkefnið Sameindaferlar að baki BLIMP1- og EZH2-miðlaðri lifun í Waldenströmsæxlum.

Einnig hlutu styrki þau Berglind Eva Benediktsdóttir, Þórarinn Guðjónsson, Andri Steinþór Björnsson, Þorkell Guðjónsson, Sævar Ingþórsson, Helga M. Ögmundsdóttir, Valtýr Stefánsson Thors,  Erla Kolbrún Svavarsdóttir,  Ásgeir Thoroddsen og Ragnar Grímur Bjarnason

Markmið Vísindasjóðs Krabbameinsfélags Íslands er að efla íslenskar rannsóknir á krabbameinum með árlegum fjárframlögum til rannsókna á orsökum krabbameina, forvörnum, meðferð og lífsgæðum sjúklinga.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert