Neyðarvistun Stuðla hálftóm að undanförnu

Halldór segir umfjöllun í fjölmiðlum oft gefa skakka mynd af …
Halldór segir umfjöllun í fjölmiðlum oft gefa skakka mynd af stöðunni. mbl.is/Hari

Mikilvægt er að horfa á styrkleika þeirrar þjónustu og úrræða sem Barnaverndarstofa hefur yfir að ráða fyrir börn með vímuefna- og hegðunarvanda, og byggja ofan á, í stað þess að segja að alls sé ónýtt og að byrja þurfi upp á nýtt. Þetta segir Halldór Hauksson, sviðsstjóri meðferðar- og fóstursviðs Barnaverndarstofu. Hann mun flytja framsögu á opnum fundi SÁÁ-klúbbsins í kvöld, þar sem vímuefnavandi ungs fólks verður ræddur.

Halldór ætlar að fjalla um styrkleika í því meðferðarkerfi sem boðið er upp á hér á landi og hvað má gera betur. „Það hefur verið mikil umræða um barnaverndarmál að undanförnu sem getur verið mjög gott, en að okkar mati hefur margt verið sagt sem er ekki alls kostar rétt og ekki alveg sanngjarnt. Það virðist vera uppi sá misskilningur að það sé að jafnaði mikil bið eftir þeim meðferðarúrræðum sem eru í boði. Svo er sem betur fer ekki. Það þýðir þó ekki að það megi ekki bæta margt,“ segir Halldór í samtali við mbl.is.

Endurspegla ekki stórkostlega veikleika

Hann telur að undantekningatilvik sem fjallað er um í fjölmiðlum gefi oft skakka mynd af stöðunni eins og hún er í raun og veru. Vísar hann þar sérstaklega til umfjöllunar frá því í apríl um 14 og 15 ára börn í miklum vímuefnavanda sem vistuð voru í fangaklefa því engin önnur úrræði voru í boði.

Halldór telur mikilvægt að horfa til styrkleika þeirra úrræða sem …
Halldór telur mikilvægt að horfa til styrkleika þeirra úrræða sem eru í boði hér á landi. Mynd/Aðsend

„Það eru auðvitað alltaf einhver mál sem eru erfið og erfitt að leysa og má gera betur í. Það hafa komið upp mál, eins og þegar þurfti að vísa börnum frá neyðarvistun Stuðla í apríl því það var ekki pláss. Það er auðvitað ekki gott. En þetta eru afmörkuð atvik sem endurspegla ekki stórkostlega veikleika í öllu kerfinu.“

Halldór telur að þjónustan sem býðst börnum með vímuefna- og hegðunarvanda hér á landi sé býsna góð. „Það er mjög mikilvægt að horfa á þessa styrkleika og það er sú leið sem við eigum að fara í að bæta okkur. Ég vil aðeins minna okkur á hvað við höfum, hvað það er sem er að virka vel og hvernig við getum byggt ofan á það.“

Miklar upplýsingar um það sem illa gengur

Barnaverndarstofa býður meðal annars upp á svokallaða fjölkerfameðferð eða MST, sem fer fram inni á heimili þess barns sem þarf á úrræðinu að halda. „Það hafa hátt í 600 fjölskyldur fengið MST meðferð á síðastliðnum tíu árum. Þar er góður árangur, meðal annars í að draga úr vímuefnaneyslu,“ segir Halldór.

Þá eru meðferðarheimilin þrjú; Stuðlar, Laugaland og Lækjarbakki, en á Stuðlum er einnig í boði neyðarvistun. Um helmingur þeirra barna sem fer á meðferðarheimili fer beint þangað, en hinn helmingurinn hefur áður verið í MST, að sögn Halldórs.

„Fyrir um 20 prósent barnanna dugir MST meðferðin ekki og þá er þörf á áframhaldandi meðferð á meðferðarheimili, en í sumum tilfellum er ekki hægt að veita meðferð heima fyrir. Annað hvort af því vandinn er of alvarlegur eða foreldrar treysta sé ekki til að taka þátt í slíkri meðferð. Það er mjög eðlilegt.“

Halldór segir að jafnaði næg pláss í þessum úrræðum, fyrir utan stutta árstíðabundna biðlista. „Það eru til dæmis engir biðlistar núna, nema í MST, en þar eru 15 fjölskyldur að bíða. Það er engin bið eftir vistun á Stuðlum eða á meðferðarheimili. Þá hefur ekki þurft að vísa frá börnum í neyðarvistun upp á síðkastið, hún hefur verið hálf tóm að undanförnu. Þannig þetta er mjög sveiflukennt, en auðvitað er það alltaf jafn slæmt þegar sveiflurnar koma upp og þegar eitthvað fer úrskeiðis.“

Halldór bendir á að umfjöllun um þjónustu sem þessa geti orðið mjög tilfinningaþrungin og þegar eitthvað gangi ekki eins og vonir stóðu til geti það verið mjög sárt. „Þá fáum við miklar upplýsingar um það, en við fáum ekki jafn miklar upplýsingar um það sem er að ganga vel.“

Fundur SÁA-klúbbsins um vímuefnavanda ungs fólks verður haldinn í Von í Efstaleiti 7, klukkan 20 í kvöld. Allir eru velkomnir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert