94 ný tilvik lifrarbólgu C

Lifrarbólga C (HCV) barst til landsins um miðjan 9. áratug …
Lifrarbólga C (HCV) barst til landsins um miðjan 9. áratug síðustu aldar með fíkniefnaneyslu um æð. AFP

Alls greindust 94 með lifrarbólgu C á Íslandi í fyrra. Einn Íslendingur lést á árinu af völdum lifrarfrumukrabbameins sem rekja mátti til viðvarandi sýkingar af völdum lifrarbólgu C. Á árinu 2017 greindust fimm einstaklingar með lifrarbólgu A hér á landi en síðustu fjögur árin á undan hafði enginn verið greindur með sjúkdóminn. Á árinu 2017 greindist lifrarbólga B hjá 68 einstaklingum en 62 (91%) voru af erlendu bergi brotnir. Þetta kemur fram í skýrslu sóttvarnalæknis um tilkynningarskylda smitsjúkdóma árið 2017.

Aukningin á lifrarbólgu C á árinu 2017 helgast að miklu leyti af smituðum einstaklingum sem voru af erlendu bergi brotnir, samkvæmt skýrslunni.

„Í ársbyrjun 2016 hófst meðferðarátak gegn lifrarbólgu C og leitast var eftir að finna sýkta einstaklinga hér á landi sem skýrir aukninguna á fjölda tilfella 2016. Í átakinu verður öllum einstaklingum á Íslandi sem greinst hafa með lifrarbólgu C boðin meðferð við sýkingunni og verður þannig leitast við að uppræta sýkinguna á Íslandi.

Fækkun smitaðra Íslendinga á árinu 2017 kann að endurspegla árangur meðferðarátaksins sem lýkur í byrjun árs 2019,“ segir á vef embættis landlæknis.

Lifrarbólga C (HCV) barst til landsins um miðjan 9. áratug síðustu aldar með fíkniefnaneyslu um æð. Hélst faraldurinn af völdum lifrarbólgunnar í hendur við fíkniefnafaraldurinn. Þegar mótefnamælingar hófust í blóðbankanum í september 1992 greindist HCV-smit hjá átta blóðgjöfum sem höfðu neytt fíkniefna um æð, en sex af þeim höfðu áður gefið blóð. Hægt var að rekja hugsanlegt smit til 27 blóðþega, en 23 af þeim höfðu smitast. Ekki fundust aðrir smitaðir fíkniefnaneytendur sem gefið höfðu blóð.

Sóttvarnalækni er kunnugt um eitt tilfelli af smiti af völdum blóðgjafar frá árunum fyrir 1992 fyrir utan þau tilfelli sem áður eru nefnd og tengdust prófunum frá 1992. Það tengist íslenskum manni sem varð fyrir alvarlegu slysi í Bandaríkjunum 1983 og þurfti á miklum blóðgjöfum að halda þar í landi og virðist hann hafa smitast af HCV við það. Eftir heimkomuna gaf hann einu sinni blóð sem leiddi til þess að blóðþegi smitaðist.

Sýking af völdum lifrarbólgu C verður viðvarandi í um 70% tilvika. Afar sjaldgæft er að sýking af völdum þessarar veiru valdi bráðum einkennum. Tilfelli eru því skráð ef mótefni eru til staðar hvort heldur sem þau mælast ein og sér eða með kjarnasýru veirunnar (virka sýkingu). Fíkniefnaneysla með sprautum og nálum er megin smitleið lifrarbólgu C. Flest tilfelli greinast meðal Íslendinga en hlutur innflytjenda hefur verið nokkuð stöðugur undanfarna tvo áratugi.

Á árinu 2017 greindust fimm einstaklingar með lifrarbólgu A hér á landi en síðustu fjögur árin á undan hafði enginn verið greindur með sjúkdóminn. Fjórir af þeim sem greindust voru karlmenn sem höfðu kynmök við aðra karlmenn. Tengdust þau tilfelli faraldri af völdum lifrarbólgu A sem gengur yfir í Evrópu um þessar mundir einkum meðal karlmanna sem hafa kynmök við karlmenn49 .

Á árinu 2017 greindist lifrarbólga B hjá 68 einstaklingum en 62 (91%) voru af erlendu bergi brotnir. Á árinu lést aldraður Íslendingur af völdum lifrarfrumukrabbameins og skorpulifur sem rekja má til langvarandi lifrarbólgu B sýkingu, samkvæmt skýrslu sóttvarnalæknis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert