Refsing lækkuð í líkamsárásarmáli

Landsréttur mildaði fyrir helgi refsingu yfir manni sem var sakfelldur fyrir líkamsárás. Í héraðsdómi var maðurinn dæmdur í sjö mánaða skilorðsbundið fangelsi en Landsréttur dæmdi hann í fjögurra mánaða skilorðsbundið fangelsi.

Maðurinn var sakfelldur fyrir að hafa, þar sem hann sat í ökumannssæti kyrrstæðrar bifreiðar, tekið konu, sem stóð við bifreiðina og hélt í stýri hennar, hálstaki, sparkað í líkama hennar og ýtt henni upp að þaki bifreiðarinnar, ekið bifreiðinni af stað á meðan hún var til hálfs út úr henni og meðan á akstrinum stóð slegið konuna í andlit og reynt að losa tak hennar af stýrinu.

Hann var jafnframt sakfelldur fyrir að hafa eyðilagt farsíma hennar og að greiða konunni rúmar 600 þúsund í miskabætur.

Tæp fjögur ár eru liðin frá því árásin átti sér stað en maðurinn er fyrrverandi unnusti konunnar. Hún hafði komið á vinnustað hans í Hafnarfirði og sakað hann um að bera út sögur um hana.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert