Vildu myndavél í turni Siglufjarðarkirkju

Vefmyndavél verður ekki sett upp í turni Siglufjarðarkirkju.
Vefmyndavél verður ekki sett upp í turni Siglufjarðarkirkju. Ljósmynd/Sigurður Ægisson

Bæjarráð Fjallabyggðar hafnaði því á fundi sínum í gær að veita leyfi fyrir uppsetningu vefmyndavélar í turni Siglufjarðarkirkju.

Á fundi bæjarráðs 15. maí var tekið fyrir erindi frá fréttamiðlinum Trölla.is um uppsetningu myndavélarinnar og samþykkti bæjarráð að leita álits lögfræðings sveitarfélagsins vegna persónuverndar, að því er kemur fram í fundargerð. 

Í svari lögfræðingsins kom fram að uppsetningin falli undir persónuverndarlög og sé ekki í samræmi við leyfðan tilgang samkvæmt fjórðu grein reglnanna. Þar segir að vöktun verði að fara fram í yfirlýstum, skýrum tilgangi, svo sem í þágu öryggis og eignavörslu.

Í ljósi umsagnarinnar sá bæjarráð sér ekki fært að veita jákvæða umsögn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert