18 barnahjónabönd leyfð frá árinu 1998

Tveir 16 ára einstaklingar hafa fengið leyfi til að ganga …
Tveir 16 ára einstaklingar hafa fengið leyfi til að ganga í hjónaband frá árinu 1998. AFP

Frá því sjálfræðisaldur var hækkaður í 18 ár, árið 1998, hefur dómsmálaráðuneytið átján sinnum samþykkt undanþágu frá skilyrðum um aldur hjónaefna. Sautján konur hafa fengið undanþágu og einn karlmaður. Í tveimur tilfellum voru einstaklingar 16 ára þegar hjónavígsla fór fram, en í hinum tilfellunum höfðu þeir náð 17 ára aldri. Allar umsóknir sem hafa borist á þessu tuttugu ára tímabili hafa verið samþykktar. Flestar umsóknirnar bárust árið 2008, eða þrjár talsins.

Þetta kemur fram í svari dómsmálaráðherra við fyrirspurn Andrésar Inga Jónssonar, þingmanns Vinstri grænna, um barnahjónabönd. Andrés óskaði eftir upplýsingum um fjölda undanþága sundurgreindum eftir aldri og kyni.

Í hjúskaparlögum kemur fram að tveir einstaklingar megi stofna til hjúskapar þegar þeir hafa náð 18 ára aldri. En í ákvæðinu kemur einnig fram að ráðuneytið geti veitt yngra fólki leyfi til að ganga í hjúskap liggi fyrir afstaða forsjárforeldra til hjúskaparstofnunarinnar. Ekki er tilgreindur lágmarksaldur í sambandi við aldursleyfisveitingu, en fram kemur að naumast yrði yngra fólki en 16 ára veitt aldursleyfi. Ekki hafa borist umsóknir vegna einstaklinga yngri en 16 ára.

Andrés spurði dómsmálaráðherra einnig að því hvernig undanþáguákvæðið samræmdist alþjóðlegum skuldbindingum Íslands í baráttunni gegn barnahjónaböndum. Í svarinu segir að nú þegar hafi ráðherra sett af stað endurskoðun á undanþáguákvæðinu ásamt því að kanna hvort bæta eigi við ákvæði í hjúskaparlögum sem fjallar um hjónavígslur einstaklinga yngri en 18 ára sem framkvæmdar eru erlendis. Endurskoðunin sé í samræmi við tilmæli Evrópuráðsins þar sem ríki eru hvött til að banna hjónabönd einstaklinga yngri en 18 ára og þá þróun sem hátt hefur sér stað á Norðurlöndunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert