Vopnaðir járnkylfum og reyndu að komast inn

Lögreglunni barst tilkynning um menn með járnkylfur reyna að komast inn í hús í Austurbænum um hálfeitt í nótt. Að sögn tilkynnanda var kylfunum ekki beitt.

Mennirnir voru farnir á brott á bifreið þegar lögregla kom á vettvang. Skömmu síðar var einn sem tengdist málinu handtekinn eftir að hann sást henda frá sér ætluðum fíkniefnum. Eftir yfirheyrslu á lögreglustöðinni Hverfisgötu var viðkomandi látinn laus.

Um svipað leyti óskuðu dyraverðir á skemmtistað í miðbænum eftir aðstoð lögreglu vegna manns sem þeir voru með í haldi. Maðurinn hafði í tvígang reynt að slá dyraverði. Þegar lögregla kom á vettvang róaðist viðkomandi, hann var settur í lögreglubifreið en reyna átti að koma honum til síns heima. Þegar lögreglubifreiðinni var ekið af stað varð maðurinn hinn versti og veittist að lögreglumanni sem sat við hlið hans. Var honum haldið þangað til komið var í fangamóttöku Hverfisgötu en þá var hann færður í fangaklefa og verður hann vistaður þangað til af honum rennur. 

Tveir voru fluttir á slysadeild eftir umferðarslys í Hafnarfirði í nótt en bifreið hafði verði ekið á ljósastaur. Fimm voru í bílnum þegar slysið varð.  

Tveir ökumenn voru stöðvaðir vegna aksturs undir áhrifum vímuefna, annar fíkniefna en hinn áfengis, í nótt. Þeir voru báðir látnir lausir að lokinni sýnatöku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert