Langmest hækkun í Reykjanesbæ

Hækkun fasteignamats er mest í Reykjanesbæ.
Hækkun fasteignamats er mest í Reykjanesbæ. mbl.is

Heildarmat fasteigna hækkar mest í Reykjanesbæ af sveitarfélögum á Íslandi, eða um 34,2 prósent á yfirstandandi ári. Hækkun fasteignamatsins er að meðaltali 12,8 prósent og 11,6 prósent á höfuðborgarsvæðinu. Höfuðborgarsvæðið er því ekki lengur að draga vagn hækkandi fasteignaverðs á landinu. Þetta kom fram á kynningarfundi Þjóðskrár á fasteignamati ársins 2019 á Grand hóteli í morgun.

Ingi Þór Finnsson, deildarstjóri mats- og hagdeildar, fór á fundinum yfir fasteignamatið, en það nær til 200.030 fasteigna; íbúðarhúsnæðis, skrifstofu- og verslunarhúsnæðis og sumarhúsa og endurspeglar markaðsverð í febrúar 2017. Þrjár aðferðir eru notaðar við matið; markaðs-, tekju- og kostnaðaraðferðir.

Myndin sýnir hækkanir á höfuðborgarsvæðinu.
Myndin sýnir hækkanir á höfuðborgarsvæðinu. mbl.is/Kort

Tvöfalt meiri hækkun íbúðarhúsnæðis á landsbyggðinni

Í máli Inga Þórs kom fram að veltan á fasteignamarkaði hafi dregist aðeins saman, en hugsanlega sé það tímabundið. Heilt yfir er verðþróun á fasteignamarkaði í höfuðborginni og landsbyggðinni að fara eftir sama mynstri, en landsbyggðin var lengur að taka við sér varðandi hækkanir.

Hækkun fasteignamats á Suðurnesjum er 28,3 prósent og í Reykjanesbæ er hún 34,2 prósent. Sagði Ingi Þór að hækkanir á Suðurnesjum hafi verið lengur af stað en annars staðar á landsbyggðinni, en sé núna nokkurn vegin á pari við önnur svæði.

Í matinu hækkar íbúðarhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu um 10,3 prósent en um 21,4 prósent á landsbyggðinni, þar af nema hækkanir fjölbýlis á landsbyggðinni 26,2 prósentum. Á höfuðborgarsvæðinu eru hækkanir íbúðarhúsnæðis mestar í jaðrinum og telur Ingi Þór að sókn í lægri verð hafi drifið þær hækkanir áfram.

Meðalhækkun sumarhúsa er 8,9 prósent og atvinnuhúsnæðis 15 prósent. Það einstaka svæði sem hækkar mest er flugvallarsvæðið Ásbrú sem hækkar um 97,6 prósent. Þar er um leiðréttingu að ræða þar sem áður giltu kvaðir um sölu fasteigna á svæðinu, sagði Ingi Þór á fundinum.

Fasteignamat á Vesturlandi hækkar um 14,3 prósent, á Vestfjörðum um 12,1 prósent, á Norðvesturlandi um 11 prósent, um 15 prósent á Norðausturlandi, um 9,5 prósent á Austurlandi og 13,7 prósent á Suðurlandi. Fasteignamat íbúðarhúsnæðis í Reykjavík hækkar um 11,4 prósent, 12,2 prósent í Mosfellsbæ, 10,6 prósent á Seltjarnarnesi, 11 prósent í Kópavogi. Í Garðabæ er hækkunin 11,5 prósent, Hafnarfirði 13,8 prósent, Akranesi 20,2 prósent, Hveragerði 21,1 prósent, Árborg 19,2 prósent og Vogum 25,5 prósent. Á Akureyri er hækkunin 15,7 prósent.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert