Ekkert „gæsluvarðhaldsherbergi“ á Stuðlum

Nýtt úrræði í umsjón Stuðla opnar í september.
Nýtt úrræði í umsjón Stuðla opnar í september. mbl.is/​Hari

„Þegar sinna þarf sérstökum þörfum barna og það þarf að aðskilja þau í langan tíma frá öðrum börnum í meðferð þá er það gert í sérstökum hluta hússins,“ segir Halldór Hauksson, sviðsstjóri fóstur- og meðferðarsviðs Barnaverndarstofu, og tekur fyrir það að á Stuðlum sé einhvers konar „gæsluvarðhaldsherbergi“.

Í bréfi sem Olnbogabörn sendu Barnaverndarstofu og fjallað var um á mbl.is í morgun segir að vitneskja sé um að „skjól­stæðing­ur hafi verið vistaður í gæslu­v­arðhalds­her­berg­inu á Neyðar­vist­un Stuðla meira og minna frá ára­mót­um,“ en að hámarksdvalartími þar séu 14 dagar.

Sá hluti hússins sem Halldór vitnar til samanstendur af herbergi, setustofu og gangi. Hann segir sjaldgæft að börn séu höfð í gæsluvarðhaldi á Stuðlum en að þegar það hafi komið fyrir sé notast við þá hluta hússins sem þykja hentugir, og að umrætt svæði hafi einhverntíma verið notað. „Við reynum að gæta öryggis barna sem eru í meðferð með viðeigandi hætti. Þó að einhver dvelji í ákveðnum hluta hússins þýðir það ekki að hann sæti einhvers konar gæsluvarðhaldi eða neyðarvistun.“

Hann segir það samkvæmt lögum að ekki megi vista einstaklinga í neyðarvistun lengur en í 14 daga í senn. Hins vegar segir hann heimildir fyrir því og ekkert athugavert við það að ef einstaklingar þurfi meiri gæslu en aðrir þá fái þeir hana. „Ef þörf krefur og það þjónar hagsmunum einstaklingsins má hafa hann aðskilinn frá öðrum sem eru í meðferð og það er öryggisráðstöfun. Þeir fá þjónustu við hæfi, eru ekki innilokaðir heldur fara út á hverjum degi eins og aðrir en með meira öryggi í kring um sig.“

Hafa hlotið fjármagn til opnunar nýs úrræðis

Þá staðfestir Halldór að Barnaverndarstofa hafi nýverið fengið fjármagn til þess að koma á fót nýju úrræði fyrir ungmenni með neysluvanda. Um þessar mundir er verið að ganga frá ráðningum nýs starfsfólks en leigusamningur um húsnæði hefur ekki verið undirritaður og gera má ráð fyrir því að úrræðið opni í september. 

Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra, tilkynnti snemma í maí að vinna við að setja á laggirnar tilraunaverkefni fyrir unglinga sem sótt hafa meðferðarúrræði en ekki náð tökum á vanda sínum. Sérstökum verkefnahópi átti að skila niðurstöðum innan tveggja vikna en í bréfi Olnbogabarna til Barnaverndarstofu kemur fram að ekki sé útlit fyrir að úrræðið opni fyrr en í september.

Þetta staðfestir Halldór og segir ástæður þess margvíslegar að ekki sé stefnt að opnun úrræðisins fyrr. Hann segir Barnaverndarstofu nýbúna að fá fjármögnun og að verið sé að ganga frá ráðningum og að ekki hafi verið gengið frá leigusamningi. „Þetta verður rekið í umsjá Stuðla og við erum að fara inn í þannig tímabil, sumarfrí, að við eigum fullt í fangi með að halda úrræðunum sem við erum með gangandi. Við teljum að það væri óöruggt og óábyrgt að fara af stað með þetta núna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert