Var kölluð lygari og þorði ekki að segja frá

Áslaug María sagði sína sögu á ráðstefnunni Þekkjum rauðu ljósin …
Áslaug María sagði sína sögu á ráðstefnunni Þekkjum rauðu ljósin á Reykjavík Natura í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég þorði ekki að segja frá af ótta við að fólk héldi að ég væri að ljúga, því það var það sem mér var kennt,“ segir Áslaug María, markþjálfi, sem sagði sögu sína af ítrekuðu ofbeldi af hendi foreldra sinna á málþingi sem Bjarkarhlíð og Kvennaathvarfið stóðu fyrir í dag. Áslaug var ein þeirra sem sögðu frá reynslu sinni á málþinginu, en vangeta kerfisins til þess að takast á við ofbeldi í nánum samböndum og úrræðaleysi gagnvart gerendum var meðal þess sem var til umfjöllunar.

Áslaug bjó við ítrekað kynferðislegt, líkamlegt og andlegt ofbeldi af hendi beggja foreldra sinna þegar hún var fjögurra til ellefu ára gömul. Hún fékk ung að heyra að hún væri ekki óskabarn móður sinnar, að hún yrði aldrei neitt annað en aumingi, var kölluð illum nöfnum auk þess sem henni var sagt að hún ætti skilið að deyja. Á yfirborðinu hafi allt virst vera fullkomið en undir niðri hafi allt verið rotið.

Mætti ofbeldi hvert sem hún sneri sér

Áslaug lýsti, á sláandi hátt, dæmum af því grófa ofbeldi sem hún sætti af hendi foreldra sinna, en faðir hennar hlaut fangelsisdóm fyrir það ofbeldi sem hann beitti hana. Í eitt skiptið hafi hún verið send út í búð, en á heimleið hafi faðir hennar beðið eftir henni í anddyri fjölbýlishússins og dregið hana með sér inn í geymslu þar sem hann misþyrmdi henni kynferðislega. Hann hafi svo sent hana heim, en þá hafi móðir hennar tekið á móti henni með skömmum, fyrir að vera sein heim úr búðinni. Hvert sem hún sneri sér hafi hún mætt ofbeldi, og því nýtt hvert tækifæri til þess að gista hjá vinkonum sínum. 

Áslaug segist vilja stíga fram og segja sína sögu nú í forvarnarskyni fyrir aðra. Ofbeldið hafi mótað líf hennar, hún hafi verið í ofbeldissamböndum, hún sé mjög meðvirk og henni hafi verið kennt í æsku að hún hafi ekki rétt á eigin tilfinningum. Hún vill með sögu sinni minna aðra á að aðgát skuli höfð í nærveru sálar, það sjáist ekki utan á fólki hvað það hafi farið í gegn um í æsku.



Áslaug hlaut standandi lófaklapp áhorfenda þegar hún hafði lokið frásögn …
Áslaug hlaut standandi lófaklapp áhorfenda þegar hún hafði lokið frásögn sinni. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert