HR einn af 100 bestu ungu háskólum heims

Háskólinn í Reykjavík er í 89. sæti á lista Times …
Háskólinn í Reykjavík er í 89. sæti á lista Times Higher Education yfir háskóla 50 ára og yngri. mbl.is/Árni Sæberg

Háskólinn í Reykjavík er einn af hundrað bestu ungu háskólum í heiminum í dag, samkvæmt lista Times Higher Education sem birtur var í gær. Á listanum eru háskólar 50 ára og yngri og er Háskólinn í Reykjavík í 89. sæti á listanum.

Listi Times Higher Education byggir á mati á þrettán lykilþáttum háskólastarfs, svo sem á gæðum kennslu og rannsókna, fjölda tilvitnana í vísindagreinar eftir starfsmenn háskólans, alþjóðlegum tengslum og samstarfi við atvinnulífið.

„Þetta er frábær niðurstaða og meiri háttar alþjóðleg viðurkenning á gæðum starfs okkar í HR,“ er haft eftir Ara Kristni Jónssyni, rektor Háskólans í Reykjavík, í tilkynningu. „Frá stofnun HR hefur áhersla verið lögð á góða kennslu og öflugt samstarf við atvinnulífið og síðan voru byggðar upp öflugar alþjóðlegar rannsóknir við háskólann. Á bak við þessa viðurkenningu er því mikil vinna og uppbygging og í henni felst hvati til að halda áfram að efla háskólann og sinna nemendum, atvinnulífinu, íslensku samfélagi og alþjóðlegu vísindastarfi enn þá betur.“

Háskólinn í Reykjavík var stofnaður 1998 á grunni Tölvuháskóla Verzlunarskóla Íslands. Árið 2005 sameinaðist hann Tækniháskóla Íslands, sem hét Tækniskóli Íslands þar til hann var færður á háskólastig árið 2002. Við Háskólann í Reykjavík starfa um 250 manns, auk fjölda stundakennara. Um 3.600 nemendur stunda nám við háskólann.

Hér má sjá lista Times Higher Education í heild sinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert