Landsliðið vinsælt í Færeyjum

Færeyingar láta heimsmeistarakeppnina ekki fram hjá sér fara
Færeyingar láta heimsmeistarakeppnina ekki fram hjá sér fara mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Íslenska landsliðið í fótbolta á stuðingsmenn víða um heim. Utan landsteinanna er stuðningurinn sjálfsagt hvergi meiri en í Færeyjum. Mörgum er í fersku minni þegar Færeyingar söfnuðust saman á Tröppunni í miðborg Þórshafnar yfir landsleikjum Íslands á EM 2016 og nú verður leikurinn endurtekinn.

Á vef Vágaportalsins kemur fram að allir leikir íslenska landsliðsins og þess danska verði sýndir á risaskjá við Tröppuna í miðbænum í samstarfi við farsímafyrirtækið Føroya.

Fyrst sýnum við leik granna okkar Íslendinga sem munu þurfa á öllum stuðningi að halda er þeir mæta Messi og hinum boltasnillingunum frá Argentínu,“ segir á færeyska vefnum.

Að sögn Péturs Thorsteinssonar, aðalræðismanns Íslands í Færeyjum er mikil stemming fyrir mótinu hjá frændum okkar Færeyingum. „Það var gífurlegur áhugi á Evrópuleikjunum í hitteðfyrra og það verður ekkert minna í ár. Maður hittir varla mann án þess að þetta sé nefnt, og þeir halda náttúrlega með Íslandi allir sem einn.“

Aðspurður segir Pétur að sendiskrifstofan í Þórshöfn muni án efa gera eitthvað í tilefni leikjanna, en útfærlan sé enn í undirbúningi og verði ekki klár fyrr en í næstu viku.

Fyrsti leikur Íslendinga á Heimsmeistaramótinu er, sem fyrr segir, gegn Argentínu í Moskvu og hefst klukkan eitt að íslenskum tíma laugardaginn 16. júní.

mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert