Engin sól í kortunum

Einhverjir hafa eflaust dregið upp regnhlífina í Reykjavík í dag.
Einhverjir hafa eflaust dregið upp regnhlífina í Reykjavík í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það dregur úr úrkomu á morgun en verður áfram svolítið blautt,“ segir Daníel Þorláksson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands. Úrhellisrigning hefur verið á höfuðborgarsvæðinu í dag en ekki er útlit fyrir að sólin nái að brjóta sér leið í gegnum skýin á næstu dögum.

„Í næstu viku verður ekki samfellt rigning en það verða suðlægar áttir með vætu af og til og svipuðum hitatölum og verið hefur,“ segir Daníel.

Á vefsíðu Veðurstofunnar sést spá til fimmtudags þar sem hæsta hitatalan fyrir Reykjavík er 11 gráður en sú lægsta 7 gráður.

Veðurfræðingurinn tekur ekki undir með blaðamanni að um hálfgert haustveður sé að ræða og segir að það sé ekki nógu mikill vindur til að hægt sé að kalla þetta „haustveður“.

Sannkölluð veðurblíða hefur ríkt á Norður- og Austurlandi síðustu vikur en veður fer kólnandi þar á slóðum og útlit er fyrir svipað veður um allt land á mánudag.

„Það sem við erum að horfa á í kortunum fram á fimmtudag eru breytilegar áttir, skýjað og dálítil væta í öllum landshlutum. Það verður kannski helst gott á Austfjörðum en verður þó ekki mikið skárra þar en annars staðar,“ segir Daníel þegar hann er spurður hvert fólk í sumarfríi eigi að leita til að fá sól í kroppinn. 

Veðurvefur mbl.is.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert