Meiddi félaga sína af gáleysi

Héraðsdómur Norðurlands eystra kvað upp dóm yfir manninum á fimmtudag.
Héraðsdómur Norðurlands eystra kvað upp dóm yfir manninum á fimmtudag. mbl.is/Jón Pétur

Rúmlega tvítugur karlmaður var sl. fimmtudag dæmdur í 30 daga skilorðsbundið fangelsi og til 850.000 króna sektargreiðslu í Héraðsdómi Norðurlands eystra fyrir líkamsmeiðingar af gáleysi, ölvun við akstur, vörslu fíkniefna og ítrekaðan fíkniefnaakstur. Þá var maðurinn sviptur ökuréttindum til sex ára.

Aðfaranótt sunnudagsins 9. apríl á síðasta ári ók maðurinn um Laufásgötu á Akureyri og á bifreiðastæði við Útgerðarfélag Akureyrar að Fiskitanga með vélarlok eða húdd af bifreið í eftirdragi. Tveir félagar mannsins sátu á húddinu sem dregið var á eftir bílnum, sem maðurinn „ók of hratt og án tilhlýðilegrar aðgætni“ með þeim afleiðingum að vélarlokið rakst utan í kantstein og félagar mannsins köstuðust af.

Hlutu þeir nokkur meiðsli, annar þeirra rifbeinsbrotnaði og hinn brotnaði á vinstri upphandlegg og var færður af vettvangi í sjúkrabíl.

Maðurinn var undir áhrifum bæði áfengis og kannabisefna er þetta atvik átti sér stað, en hann lýsti því svo fyrir dómi að hann hefði verið búinn að fá sér þrjá bjóra áður en hann settist undir stýri og fór að draga félaga sína.

Í dómi Héraðsdóms Norðurlands eystra segir að litið hafi verið til þess við ákvörðun refsingar að mennirnir tveir sem létu draga sig á vélarhlífinni tóku áhættu með því athæfi sínu, en virða verði ákærða það til gáleysis að hafa dregið vélarlokið með þessum hætti. Gáleysi hans var þeim mun meira fyrir þá sök að hann hafði neytt áfengis áður.

Sem áður segir var maðurinn einnig dæmdur fyrir ítrekaðan fíkniefnaakstur og einnig fyrir að hafa haft nokkur grömm amfetamíns og kannabisefna á dvalarstað sínum á Akureyri í október í fyrra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert