Björninn unninn með tilnefningunni

Ólafur Arnalds er tilnefndur fyrir tónlist í sjónvarpsþáttunum Broadchurch.
Ólafur Arnalds er tilnefndur fyrir tónlist í sjónvarpsþáttunum Broadchurch. mbl.is/Eggert

„Auðvitað er stórkostlegt að sjá Ólaf í þessum hópi,“ segir Arnar Eggert Thoroddsen tónlistarspekúlant um Ólaf Arnalds sem tilnefndur er fyrir bestu kvikmyndatónlistina á Classic Brit Awards-hátíðinni sem fram fer í kvöld.

Ólafur er tilnefndur fyrir tónlist sína í síðustu þáttaröð bresku sjónvarpsþáttanna Broadchurch. „Ólafur er auðvitað búinn að vinna mjög ötullega og af mikilli elju að sinni tónlist,“ segir Arnar Eggert og er ekki hissa á tilnefningu Ólafs.

„Venjulega endar þetta nú alltaf hjá einhverjum reynsluboltanum,“ segir hann, en Hans Zimmer er tilnefndur í þrígang, en í heildina eru fimm tilnefningar í flokknum. Hans Zimmer er tilnefndur fyrir tónlistina í kvikmyndinni Dunkirk, tónlistina í kvikmyndinni Blade Runner 2049 ásamt Benjamin Wallfisch, og tónlistinni í þáttaröðinni Blue Planet II ásamt Jacob Shea og David Fleming. Þá eru þeir John Debney og Joseph Trapanese tilnefndir fyrir tónlistina í söngleikjamyndinni The Greatest Showman.

Arnar Eggert segir það ekki venjuna að verðlaun á hátíðum sem Brit Awards séu óvænt útspil en segir þó aldrei að vita. Ólafur hlaut BAFTA Craft Award fyrir tónlistina í fyrstu seríu Broadchurch, svo segja má að hann sé kominn á skrið. Í rauninni segir Arnar Eggert björninn unninn við að fá tilnefningu til Brit-verðlauna. „Hann er tilnefndur þarna ásamt helsta kvikmyndatónskáldi samtímans, það er ekkert öðruvísi. Það er alveg ótrúlega mikils virði og þetta er bara frábært.“

„Að búa til músík við svona þætti, þú þarft að vera klókur. Músíkin má ekki skyggja á en þú þarft líka að setja þitt einkenni á,“ segir Arnar Eggert.

Hátíðin fer fram í Royal Albert Hall í London í kvöld og hefst klukkan 19 að íslenskum tíma. Hægt verður að horfa á hátíðina í streymi.

Arnar Eggert tónlistarspekúlant með meiru.
Arnar Eggert tónlistarspekúlant með meiru. mbl.is/Kristinn Ingvarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert